Innlent

Umhverfi Selárlaugar bitbein Vopnafjarðarhrepps og Fremri-Nýps

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Selárlaug var löngum opin allan sólarhringinn en opnunartími var styttur sökum slæmrar umgengni.
Selárlaug var löngum opin allan sólarhringinn en opnunartími var styttur sökum slæmrar umgengni. MYND/MAGNÚS MÁR
Héraðsdómur Austurlands vísaði á dögunum kröfu Vopnafjarðarhrepps á hendur eiganda Fremri-Nýps og Ungmennafélaginu Einherja frá dómi. Umrædd krafa snýr að viðurkenningu á eignarrétti hreppsins á landsvæði umhverfis Selárlaug.

Ólafur Áki Ragnarsson
Sundlaugin var byggð árið 1948 af Einherja í landi Fremri-Nýps. Þá var jörðin í eigu hreppsins en var seld árið 1963. Sundlaugin og „nauðsynlegt athafnasvæði“ voru undanskilin kaupunum og skyldu mæld út og afmörkuð nánar síðar meir. Það var aldrei gert og þaðan er ágreiningurinn sprottinn.

Líkt og áður segir var málinu vísað frá dómi. Það var gert á þeirri forsendu að efnisdómur um málið fæli í sér stofnun á sjálfstæðri fasteign. Slíkt er háð lögbundnum skilyrðum og eftir atvikum samþykki stjórnvalda. Taldi dómari málsins að með því færi hann inn á verksvið stjórnvalda.

„Við höfum kært úrskurðinn áfram til Hæstaréttar,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps. Annað mál frá hreppnum er sem stendur fyrir sama dómstól en áður en hægt er að fá botn í það þarf að skera úr um eignarhald á landsvæðinu.

Árið 2011 óskaði Veiðifélag Selár þess að fá umframvatn úr borholum á jörðinni til að kynda veiðihúsið. Var það samþykkt með þeim fyrirvara að vatn í laugina hefði forgang yfir veiðihúsið. Hreppurinn hefur krafið Veiðifélagið um fjórar milljónir króna fyrir heita vatnið sem félagið hafnar að greiða meðal annars á þeim forsendum að holurnar séu í þeirra eigu. 

Ljóst er að niðurstaða mun ekki fást í síðara málið fyrr en skorið hefur verið úr um eignarhald á landspildunni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×