Innlent

Íbúar skora á vinsælan lækni sem fær ekki fulla stöðu á Hvolsvelli

Sveinn Arnarson skrifar
Ísólfur Gylfi Pálmason er sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Ísólfur Gylfi Pálmason er sveitarstjóri Rangárþings eystra. vísir/vilhelm
Undirskriftum íbúa í Rangárþingi eystra er nú safnað til að skora á Þóri Kolbeinsson, lækni á Hellu, að halda áfram störfum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og skorað er á stjórn HSU að gera það sem í hennar valdi stendur til að halda í starfskrafta hans. Skila á undirskriftum til forstjóra HSU í lok vikunnar.

Á meðan komum á heilsugæsluna á Hvolsvelli hefur fjölgað í takt við fjölgun ferðamanna á svæðinu hefur lækninum, Þóri Kolbeinssyni, verið neitað um fulla stöðu við heilsugæsluna og íhugar hann því að flytjast búferlum. Síðan í hruninu hefur Þórir verið í 75 prósent stöðu sem læknir. Þórir hefur um árabil reynst svæðinu vel og því finnst íbúum sárt að sjá á eftir honum.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir Þóri hafa verið öflugan lækni og fjöldi íbúa vilji ólmir halda honum áfram á svæðinu.

„Þórir hefur verið kjölfesta í samfélaginu og þess vegna er þessi undirskriftasöfnun orðin að veruleika. Íbúar á svæðinu hafa þurft að taka á honum stóra sínum vegna skorts á þjónustu HSU hér á Hvolsvelli síðustu misseri,“ segir Ísólfur Gylfi. Hann vill þó árétta að undirskriftasöfnunin er ekki á vegum sveitarfélagsins heldur sprottin upp hjá hjá grasrót íbúa á svæðinu sem vilji halda Þóri.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur andað köldu í samskiptum manna á milli innan HSU. Ekki er langt síðan sveitarstjórn krafðist þess að HSU færi eftir samningi við sveitarfélagið þegar HSU ætlaði að loka starfsstöð sinni á Hvolsvelli.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×