Innlent

Ofurmáni birtist jarðarbúum í kvöld: „Eins og munurinn á 15 og 16 tommu pítsu“

Atli Ísleifsson skrifar
Sævar Helgi segist vonast til að létti til þannig að tunglið birtist Íslendingum á morgun eða næstu daga.
Sævar Helgi segist vonast til að létti til þannig að tunglið birtist Íslendingum á morgun eða næstu daga. Vísir/Hanna/AFP
„Veðurspáin er frekar léleg þannig að ég efast um að nokkuð sjáist til tunglsins í kvöld,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnufræðifélags Seltjarnarness. Mikið hefur verið rætt um að svokallaður „ofurmáni“ birtist jarðarbúum í kvöld.

Tunglið hefur ekki verið eins nálægt jörðu síðan 1948 og er nú í 356.509 kílómetra fjarlægð. Þannig munu margir líta til himins í kvöld til að líta tunglið augum.

Sævar Helgi segir að þegar tunglið er í innan við 367 þúsund kílómetra fjarlægð fjá jörðu sé talað um „fullt tungl í jarðnánd“ á fræðimáli. Það sé hins vegar ekki nógu þjált þannig að fólk hefur kallað það „ofurmána“.

Ekkert „ofur“ við tunglið

„Það er samt í raun ekkert „ofur“ við tunglið þó það sé svona nálægt okkur,“ segir Sævar Helgi. „Við sjáum engan sjáanlegan mun á stærð þess í kvöld eða annað kvöld eða í næsta mánuði. Það er ekki nema maður hafi þessi tvö fyrirbæri saman hlið við hlið að maður sjái einhvern mun á minnsta fulla tungli ársins og stærsta.

Þannig að þetta er í raun mikið „hæp“ á netinu og því miður eru stofnanir eins og NASA að taka þátt í því. Þetta er í raun eins og munurinn á 15 og 16 tommu pítsu. Þú sérð ekki muninn nema þær eru hlið við hlið. Svo myndirðu aldrei kalla 16 tommu pítsu „ofurpítsu“,“ segir Sævar Helgi.

Hann tekur þó fram að tunglið sé samt alltaf fallegt og stórmerkilegt og fólk ætti að horfa sem oftast á það, sama hvort það sé næst eða fjærst jörðinni. „Það er þarna og það er þökk sé því að við erum með 24 klukkustundir í sólarhring, ástæðan að við fáum vetur, sumar, vor og haust, og svo framvegis.“

Ský, ský, burt með þig

Sævar Helgi segist vonast til að létti til þannig að tunglið birtist Íslendingum á morgun eða næstu daga. „Núna á að vera skýjað yfir öllu landinu en eitthvað á að létta til þegar líður á kvöldið, aðallega norðantil. Í fyrramálið ætti fólk á Austurlandi að sjá tunglið. Við á höfuðborgarsvæðinu erum hins vegar föst í skýjaþykkni eins og hefur verið síðustu daga,“ segir Sævar Helgi.

Hann bendir á að síðustu þrjú fullu tungl hafa verið svokallaðir „ofurmánar“ og von sé á þeim næsta 14. desember. „Þá verður tunglið 3.000 kílómetrum fjær. Munurinn er svo hverfandi lítill að það verður enginn sjáanlegur munur. Það sama kvöld verður svo loftsteinadrífan Geminítar í hámarki.“

Sævari Helga gremst skýjaþykknið mjög þar sem það hefur komið í veg fyrir að sjáist hafi til stjananna í í tvær vikur. „Þetta er ömurlegt. Það er lítið hægt að gera nema bíða eftir að þetta gangi yfir. Vonandi gerist það sem allra fyrst.“

Nánar er fjallað um „ofurmána“ í frétt Stjörnufræðivefsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×