Innlent

Ellefu nautgripir drápust í stórbruna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Slökkvistarf hafði staðið yfir í um sex klukkustundir þegar Vísir náði tali af Baldri Pálssyni slökkviliðsstjóra.
Slökkvistarf hafði staðið yfir í um sex klukkustundir þegar Vísir náði tali af Baldri Pálssyni slökkviliðsstjóra. Vísir/Stefán
Ellefu nautgripir drápust í stórbruna við bæinn Fögruhlið í Jökulsárhlíð um hádegisbil í dag. Brunavarnir á Austurlandi vinna enn að því að slökkva eldinn, að sögn Baldurs Pálssonar, slökkviliðsstjóra. Mbl.is greindi fyrst frá.

Baldur segir að um altjón á fjárhúsi, sem rúmar 540 krindur, og gripahúsi sé að ræða, en ekkert fé var inni í fjárhúsinu. „Kindurnar voru allar úti. Núna erum við að reyna að ná járnþaki af fjárhúsinu til þess að reyna að slökkva í öllum glæðum svo járnið fari ekki að fjúka um allt. Það er enn eldur undir járninu,“ segir Baldur í samtali við Vísi.

Hann segir að slökkviliðið verði á vettvangi þar til búið sé að ganga úr skugga um að slökkt hafi verið í öllum glæðum. Þær geti teygt sig í þúsund heyrúllur sem séu þar skammt frá. Aðspurður segir Baldur að íbúar hafi ekki verið heima þegar eldurinn kom upp, og að því hafi engan sakað. Upptök eldsins séu enn sem komið er ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×