Innlent

Smálánin afbaka íslenska bóksölulista Amazon

Jakob Bjarnar skrifar
Egill Örn hefur engan húmor fyrir furðulistum sem nú birtast á Amazon yfir mest seldu rafbækurnar og hafa útgefendur sent Amazon erindi vegna málsins.
Egill Örn hefur engan húmor fyrir furðulistum sem nú birtast á Amazon yfir mest seldu rafbækurnar og hafa útgefendur sent Amazon erindi vegna málsins.
Sölulisti Amazon yfir íslenskar rafbækur er ævintýralega torkennilegur. Bækurnar sem þar eru efstar eru eftir höfunda sem skáka í skjóli dulnefna en þau eru ekkert sérstaklega skáldleg. Alráður, Adríel og Algauti umkringja með verkum sínum Guðrúnu frá Lundi. Svo virðist sem starfsemi hinna umdeildu smálánafyrirtækja hafi snarbrenglað bóksölulistann á Amazon.

Rándýrar google translate bækur

Klausurnar sem fylgja bókunum úr hlaði virðast upphaflega hafa verið á ensku eða einhverju öðru tungumáli og þá settar í google translate forritið og þannig snarað yfir á íslensku. Sú bók sem er efst á lista þegar þetta er skrifað, en listinn breytist reglulega, heitir Virka daga Stalker og er sögð eftir Halldór Sigfússon. Hún kostar 50 dollara eða rúmar 5.600 krónur.

Virka daga Stalker er nú ein söluhæsta bókin á lista Amazon yfir íslenskar rafbækur.
„Svæðið hefst með her eftirlitsstöð. Það er vitað að allir. Síast inn í Zone geta verið mismunandi leiðir. Hægt mútur lífvörður. En það þýðir ekki að vernda þig frá skotinn í bakið. Þú getur fundið skarð í Cordon kringum svæði. En þetta þýðir ekki að eftir brottför Thorn, þú ert ekki að hafa flogið í minefield. Hægt er að koma sem viðbót starfsmaður í öðrum hópi vísindamanna, að leggja til Zone, en á veginum eins og ef við tækifæri til að rúlla í ranga átt. En það mun ekki frelsa þig frá liggja í leyni meðal bloodsucker rústir.“

Þetta er óskiljanlegt rugl og ef textanum er snúið yfir á ensku aftur, það er ef enska er frummálið, virðist sem um sé að ræða lýsingu á einhverjum tölvuleik:

„The area begins with a military checkpoint. It is known to everyone. Infiltrate Zone can be different ways. You can bribe the guards. But it does not protect you from the shot in the back. You can find a gap in the cordon around the area. But this does not mean that after passing Thorn, you are not flying into a minefield. You can come as an additional employee in another group of scientists, suggesting Zone, but on the road as if by chance to roll in the wrong direction. But it will not save you from the lurking among bloodsucker ruins.“

Ólíklegt að menn kaupi þessi furðuverk dýrum dómum

Afar lausleg leit á Google eftir þessum texta bar þó ekki árangur.

Egill Örn Jóhannsson, formaður félags íslenskra bókaútgefenda á erfitt með að sjá húmorinn í þessu en bókaútgefendur hafa lagt mikla vinnu í samninga við Amazon um sölu þar á íslenskum rafbókum.

„Þetta er stórundarlegt og í raun má telja víst að einhverjir séu að misnota kerfið. Í öllu falli finnst mér afar ótrúlegt að Íslendingar séu að kaupa þessi furðuverk dýrum dómum á Amazon,“ segir Egill Örn.

Algauti er nýr höfundur sem kveður sér hljóðs með bók sinni ákæru. Henni er fylgt úr hlaði svona: Við höfum alltaf langað okkar sími til að vera fullhlaðin. Það skiptir ekki máli hversu oft við notum það, við viljum bara það að vera fullur kostnaðarlausu. Við skulum reyna að lesa þessa bók og fá bestu ráð.
Þetta eru að sönnu dularfullar bækur og einu hugsanlegu skýringarnar á þessu virðist vera starfsemi smálánafyrirtækjanna. Í sumar sumar komust dómsstólar að þeirri niðurstöðu að starfsemi þeirra væri ólögleg en þau sluppu þó við sekt. Þá breyttu þau starfsháttum sínum og bjóða rafbækur til kaups og lán fylgir.

Smálán komið í gjaldþrotaskiptameðferð

Á síðunni smalan.is segir að bók og lán hafi verið stofnað til að veita almenningi aðgang að stóru rafbókasafni okkar og veita viðskiptavinum lán á góðum kjörum.

„Bók og lán Smálán gerir þér kleift að kaupa rafbækur úr safni okkar auk þess sem þér býðst jafnframt að taka lán. Hvort tveggja, rafbókin og lánið, er afgreitt innan 30 mínútna. Þjónustan er áþekk lánaþjónustu bankanna eða kreditkortaþjónustu, en þó þarf ekki að stofna reikning eða greiða árgjöld eða önnur gjöld tengd viðskiptunum. Viðskiptavinir greiða eingöngu gjald fyrir hvert lán fyrir sig í samræmi við tilmæli Neytendastofu,“ segir á síðunni.

Vísir gerði tilraun til að heyra í forsvarsmönnum Smálána, þá til að fá nánari skýringar á þessu fyrirkomulagi, en án árangurs. Þjónustuver tilkynnti blaðamanni að fyrirtækið væri nú til gjaldþrotaskipta og þar væri enginn til svara.

Brellubækur

Eiginlega er ekki hægt að hafa önnur orð yfir þetta en að um sé að ræða svikamyllu. Hvað varðar hina snarbrengluðu bóksölulista Amazon beinast böndin óhjákvæmilega að smálánafyrirtækjunum. Eða kann Egill Örn einhverjar aðrar skýringar á þessum nýstárlegum metsölubókum?

Rétt í þann mun er þessi frétt fór í birtingu skaust þessi spennandi bók á toppinn. Fast og falleg eftir Guðbjörgu Antonsdóttur, sem er líkast til listamannanafn.
„Ég þori ekki að fullyrða um þetta, en sjálf gáfu þessi smálánafyrirtæki það út fyrir einhverjum misserum síðan að þau ætluðu að veita smálán og hengja saman við sölu rafbóka, sem alltaf virkaði ákaflega furðulega í öllu tilliti. Óneitanlega finnst manni því afar líklegt að þetta tengist einhverri starfsemi af slíku tagi, því eins og ég sagði áðan þá er það nánast óhugsandi að fólk falli í miklum mæli fyrir þessum rafbókum sem augljóslega eru ekki „alvöru“ heldur einhvers konar brella af einhverju tagi,“ segir Egill Örn.

Bókaútgefendur ætla ekki að sitja undir þessu þegjandi

Hann telur víst að þessar æfingar hafi ekki góð áhrif á rafbókamarkaðinn.

„Metsölulistar íslenskra rafbóka á Amazon eru allir stórkostlega bjagaðir, en mér hefur sýnst meirihluti þeirra bóka sem verma efstu sætin tengjast þessari vitleysu. Það gerir það að minnsta kosti að verkum að erfiðara verður að finna „alvöru“ bækur inn á milli þessa rugls.“

Egill Örn segir bókaútgefendur ekki ætla að sitja með hendur í skauti varðandi þennan undarlega vanda sem þeir nú standa frammi fyrir.

„Við höfum þegar sent fyrirspurn á Amazon um þessar bækur og bent þeim á að þarna sé augljóslega verið að selja vöru sem er til þess fallin að blekkja kaupendur. Við getum ekki setið undir þessu þegjandi og hljóðalaust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×