Innlent

Fangageymslur fylltust í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt og fylltust fangageymslur. Fimm menn voru handteknir í einu húsi eftir að tilkynnt hafði verið um hávaða og slagsmál í partíi í Laugarneshverfi. Mennirnir sem voru handteknir voru grunaðir um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Einn var fluttur á slysadeild með minniháttar áverka.

Þá var kveikt í IKEA-geitinni í nótt og þrír menn handteknir vegna íkveikjunnar.

Ökumaður bíls keyrði aftan á annan bíl á Háaleitisbraut í gær og reyndist hann ekki verið með ökuréttindi. Þá veittist stútur sem stöðvaður var á Vesturlandsvegi að lögreglu. Hann var handtekinn vegna ölvunaraksturs og ofbeldis gegn lögreglu.

Allt í allt voru 13 vistaðir í fangageymslum fyrir ýmis brot og einn var í „gistingu að eigin ósk“, eins og það segir í dagbók lögreglunnar.

Tilkynnt var um tvö innbrot í bíla og var ýmsum munum stolið úr bílunum og þar á meðal fartölvu úr einum þeirra.

Flytja þurfti mann á slysadeild sem hafði dottið á höfuðið á veitingahúsi við Austurstræti seint í nótt. Fyrr um kvöldið hafði maður verið handtekinn á sömu götu eftir að hann braut rúðu á veitingastað með flösku. Þar að auki var ofurölvi maður handtekinn í Kópavogi þar sem hann var með ónæði sem og annar í Egilshöll. Báðir voru vistaðir í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×