Þetta kemur fram í tilkynningu frá trúfélaginu sem birt er á Facebook. Þar kemur fram að hjá innanríkisráðuneytinu sé til meðferðar mál sem varðar framkvæmd stjórnarskipta trúfélags Zúista á síðasta ári, en fyrrverandi forsvarsmenn félagsins kærður ákvörðun stjórnvalda um skipan nýrra forsvarsmanna.
„Verið er að vinna í málinu og við munum greina frá því hér þegar niðurstaða hefur fengist,“ segir í tilkynningu frá Zúistum.
Að öðru leyti eru áform Zúista óbreytt og krafa þeirra um breytingar á trúfélagakerfinu stendur.
„Við bendum á að 1. desember nálgast en trúfélagsskráning einstaklinga þann dag ákvarðar til hvaða trúfélags sóknargjöld þeirra renna árið eftir. Rétt er að nefna að andvirði sóknargjalda þeirra sem standa utan trúfélaga renna ekki til Háskóla Íslands heldur greiða þeir hlutfallslega meira til samneyslunnar,“ segir í tilkynningunni.
Hvetja Zúistar alla til að yfirfara skráningu sína fyrir næstu mánaðamót.