Innlent

Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur dæmt 21 árs gamlan mann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgunarbrot sem átti sér stað í vor. Var maðurinn einnig dæmdur til þess að greiða brotaþola milljón krónur í skaða- og miskabætur auk sakarkostnaðar.

Málavextir voru þeir að brotaþoli átti afmæli umrætt kvöld og hafði haldið veislu í tilefni af því. Gerandinn var einn gesta í afmælisveislunni en brotaþoli þekkti hann ekki. Hafði hann komið í fylgd æskuvinar brotaþola. Eftir veisluna lögðu brotaþoli, æskuvinur hennar og gerandinn leið sína á dansleik og eftir að honum lauk leyfði brotaþoli mönnunum tveimur að gista á sófa á heimili hennar.

Brotaþoli vaknaði síðar um nóttina við það að maðurinn var að hafa samræði við hana. Hún henti honum af sér og rak á dyr. Í framhaldi fór brotaþoli til skoðunar á neyðarmóttöku sjúkrahússins á Akureyri og formleg lögreglurannsókn hófst.



Hefði átt að vita af samkynhneigð brotaþola

Hinn ákærði neitaði staðfastlega sök fyrir dómi og sagði að um samfarir hefði verið að ræða, ekki nauðgun. Hún hafi verið vakandi og ekki spornað gegn verknaðinum fyrr en eftir drykklanga stund og hafi hann þá látið sig hverfa.

Í dómi héraðsdóms Norðurlands vestra kemur fram að konan sem brotið var á sé samkynhneigð og að hún hafi talið að gerandanum hlyti að hafa verið það ljóst áður en hann framdi brotið. Hafi íbúð hennar verið skreytt regnbogafánum og allir vinir hennar, auk fjölskyldu, viti af samkynhneigð hennar. 

Í dómnum kemur fram að framburður brotaþola hafi verið trúverðugur og var hann því lagður til grundvallar við úrlausn málsins. Þótti dómnum tveggja ára fangelsisvist hæfileg refsing, í ljósi alvarleika brotsins og þess að sakfelldi hafði aldrei sætt refsingu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×