Innlent

Áhyggjuefni ef rétt reynist

Svavar Hávarðsson skrifar
Sterkar vísbendingar eru um að gamalt, veikt fólk sé oft vannært – bæði heima hjá sér og á sjúkrastofnunum, samkvæmt rannsóknum.
Sterkar vísbendingar eru um að gamalt, veikt fólk sé oft vannært – bæði heima hjá sér og á sjúkrastofnunum, samkvæmt rannsóknum. vísir/gva
Það er einfaldlega rangt að viðmið Sjúkratrygginga Íslands um líkamsþyngdarstuðla eða þyngdartap aldraðra, sem nýttir eru til að ákvarða hvort einstaklingur á rétt á niðurgreiðslu á næringardrykkjum eða næringarefnum, grundvallist ekki á alþjóðlega viðurkenndum stöðlum.

Þetta fullyrðir Steingrímur Ari Arason, forstjóri SÍ, en Ólöf G. Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands, sagði í frétt blaðsins í gær, að skilyrði SÍ væru þannig í dag að þeir sem fullnægja þeim séu orðnir svo vannærðir að það sé í raun erfitt eða of seint að hjálpa þeim.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri SÍvísir/gva
Þessu hafnar Steingrímur Ari alfarið en hins vegar sé það annað mál hvort ástæða sé til að taka nefnd viðmið stofnunarinnar til endurskoðunar. Hvort þau séu sambærileg við það sem gerist annars staðar, til dæmis á Norðurlöndunum segist Steingrímur ekki vita. „En það getur vel verið að það megi endurskoða greiðsluþátttökuna.“

Steingrímur Ari telur, þegar heilsa aldraðra er til umræðu í þessu samhengi, að ekki megi missa sjónar á því sem skiptir mestu máli – að fyrst og síðast þurfi að hafa hugfast að heilsa og vellíðan sjúklinga eru á ábyrgð sjúkrastofnana þegar þeir dvelja þar. „Sjúkratryggingar koma inn með aðstoð, og þá greiðsluþátttöku, þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt,“ segir Steingrímur og bætir við að sé það raunverulega svo, að stór hluti skjólstæðinga stofnana ríkisins sé vannærður, sé það mikið áhyggjuefni.

Rannsókn sem gerð var 2015 og 2016 sýndi að tveir af hverjum þremur inniliggjandi öldruðum á Landakotsspítala eru vannærðir eða sýna þess sterk merki að svo sé.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Gamalt veikt fólk sveltur

Sterkar vísbendingar eru um að vannæring gamals fólks sé alvarlegt vandamál hér á landi. Rannsókn á Landakoti sýndi að svo átti við um tvo af hverjum þrem. Sjúkratryggingar niðurgreiða ekki mat fyrr en það er í raun of seint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×