Innlent

Bann við blístri og spillt siðferði

Þorgeir Helgason skrifar
Lögreglusamþykkt Árnessýsslu.
Lögreglusamþykkt Árnessýsslu. vísir/gva
„Ég man nú ekki til þess að þessu ákvæði hafi verið beitt, en ég hef verið viðriðinn skógrækt frá því um 1955,“ segir Jón Loftsson, en hann var skógræktarstjóri ríkisins á árunum 1990 til 2015. Í lögum um skógræktardag skólafólks frá árinu 1952, hefur skógræktarstjóri heimild til að kveðja alla nemendur í ríkisskólum landsins, til starfa í þjónustu Skógræktar ríkisins, einn dag á ári. Heimildin tekur þannig til grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla á Íslandi.

Snæhérar eru ekki lengur friðaðir á Íslandi.
Mörg laganna í íslenska lagasafninu eru löngu komin til ára sinna. Á tíunda áratug síðustu aldar var ráðist í hreingerningu á lagasafninu og ýmis ákvæði felld úr gildi. Lög um friðun snæhéra voru ein þeirra. Lögin voru sett árið 1914 þrátt fyrir að aldrei hafi snæhéri þrifist hér á landi. Í hreingerningunni voru líka til dæmis felld úr gildi lög um aðgreiningu holdsveikra frá öðum mönnum og lög um þyngd bakarabrauða.

Í fyrra gerðist það svo að tilskipun Ara Magnússonar, sýslumanns og höfðingja í Ögri við Ísafjarðardjúp, sem hann kvað upp árið 1615 um að allir Baskar skyldu réttdræpir á Vestfjörðum, var afnumin. Jónas Guðmundsson, sýslumaður Vestfjarða, gerði það í tilefni af því að minnisvarði um skipbrotsmennina var afhjúpaður á Hólmavík, 400 árum eftir að þeir voru drepnir af heimamönnum.

Samkvæmt gildandi lögum má sekta sjómenn séu þeir latir. Þessir sjómenn eru þó væntanlega harðduglegir og eiga því ekki von á sektum.vísir/stefán
Latir sjómenn sektaðir

Friðrik sjötti, konungur Danmerkur, sendi lagaboð til Íslands árið 1811. Þar kvað hann á um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum. Með lagaboðinu er lögð skylda á lögreglustjóra að sjá til þess að fundið fé sé auglýst í blaði. Hafi féð þó fundist í kaupstað, þar sem engin blöð koma út, skal hinum fundnu munum lýst með uppfestum auglýsingum og bumbuslætti. Ekki er þó vitað hvort nokkurn tímann hafi þurft að slá á bumbu vegna fundins fjár.

Blátt bann er lagt við leti eða seinkomum sjómanna í konungsbréfi frá árinu 1752. Hlýði háseti ekki yfirmanni sínum um borð, eða er latur, ber honum að greiða tvo fiska í hvert sinn. Sé hann hins vegar seinn um borð kostar það hann þrjá fiska og reyni hann að fá skipstjórann til að halda til lands kostar það hann tvo fiska. Ólíklegt er þó að þessi ákvæði komi til kasta dómstóla enda eru vinnuréttarlög og réttindi sjómanna æðri þessum ákvæðum. Það þótti hins vegar ekki tilefni til þess að afnema konungsbréfið í hreinsuninni á lagasafninu á tíunda áratugnum.

Börn í grímubúningum, ef til vill á leið á álfadans eða grímudansleik.vísir/ernir
Refsað við dulklæðnaði

Bannað var að blístra á almannafæri í Árnessýslu samkvæmt lögreglusamþykkt sem gilti á árunum 1939 til 2007. Lögreglusamþykktin var komin vel til ára sinna þegar ný tók við. Héraðsdómur gagnrýndi hana þegar á hana reyndi og sagði hana ekki vera í takt við tíðarandann. Í kjölfarið var ráðist í endurbætur á samþykktinni.

Árnesingar lögðu þó ekki aðeins bann við blístri. Bannað var að syngja á almannafæri og hringja dyrabjöllum að ástæðulausu. Ef menn ætluðu að dulklæða sig var það aðeins heimilað ef þeir voru á leið á grímudansleik eða á álfadans. Refsing við broti gegn lögreglusamþykktinni varðaði sektum allt að þúsund krónum.

Gerist menn brotlegir gegn lögum um bann við botnvörpuveiðum eða lögum um fiskveiði í landhelgi, skal sektin ákveðin í gullkrónum. Þetta ákvæði tók gildi árið 1924 og er eina ákvæðið sem er í gildi í dag sem gerir ráð fyrir gullkrónum.

Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, skólastýra hússtjórnarskólans.vísir/gva
Inntökuskilyrðin í húsmæðraskóla er að finna í lögum um menntun kennara frá árinu 1947. Þar eru lagðar öllu ríkari kröfur til nemenda en gengur og gerist í íslensku skólakerfi.

Nemendur þurfa að vera á tuttugasta og fyrsta aldursári, heilbrigðir og óspilltir að siðferði.

Margrét Dórothea Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík, kannaðist ekki við að nokkrum nemanda hefði verið neitað um skólavist vegna spillts siðferðis.

Flestar fermingar með ólögmætum hætti

Í tilskipun um ferminguna frá árinu 1759 er ríkiskirkjunni bannað að ferma börn fyrr en þau eru orðin 14 ára gömul. Ástæðan sem gefin er fyrir því, er að börn yngri en fjórtán ára að aldri eru of ung til þess að skilja hve þýðingarmikil fermingin er. Í seinni tíð á Íslandi hafa börn verið fermd á fjórtánda aldursári. Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, segir að mikill fjöldi sé til af bréfum, allt fram á 20. öldina, þar sem beðið var um undanþágu frá aldursskilyrðinu.

Í annarri tilskipun frá miðri 18. öld er lögð sú skylda á presta að þeir heimsæki alla meðlimi safnaðar þeirra, að minnsta kosti tvisvar á ári. „Þetta lagðist af á 20. öldinni með breyttri samfélagsþróun. Hlutverka presta voru miklu fjölbreyttari á þessum tíma. Þeir sinntu til dæmis manntali, fræðslu og öfluðu upplýsinga um heyrnardapra,“ segir Helgi.

Í lagasafninu má einnig finna tilskipanir og lög sem kveða á um að kirkjureikninga skuli greiða með silfurmynt, að hurðum kirkna skuli hagað þannig að þær opnist út og að ekki megi geyma illa þefjandi hluti í kirkjum. Gerist maður sekur um það þarf að greiða eitt lóð silfurs í sekt.

Í áratugi börðust samkynhneigðir fyrir réttinum til þess að ganga í hjónaband.vísir/andri
Hjúskapur samkynhneigðra og daufblindir

Á síðustu árum hefur Alþingi ráðist í þarfar og mikilvægar breytingar á íslenskum lögum. Í júní árið 2010 var stigið sjálfsagt skref í réttindabaráttu samkynhneigðra. Hjúskaparlögum, sem höfðu fyrir þann tíma aðeins gilt um hjúskap karls og konu, var breytt með þeim hætti að þau tóku til hjúskapar tveggja einstaklinga, óháð kyni. Breytingin var brýn réttarbót og liður í að auka jafnræði og jafnrétti hér á landi.

Innanríkisráðuneytið réðst svo í aðgerðir árið 2014 til þess að breyta hugtakanotkun laga. Helstu breytingarnar fólu í sér að ekki var lengur talað um fatlaða heldur fatlað fólk. Þá var heldur ekki lengur talað um „daufblinda einstaklinga“ heldur „einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu“. Lögunum var breytt vegna undirbúnings fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi.

Íslensk löggjöf, sem nú er talin gilda, spannar að minnsta kosti sjö aldir. Elsta lagaboðið er úr Kristnirétti Árna biskups Þorlákssonar frá 1275 um forræði biskups á kirkjum. Tugir kafla Jónsbókar frá árinu 1281 eru enn í gildi og koma margir þeirra oft á ári til álita hjá dómstólum. Hvergi á Norðurlöndum eru jafngömul einstök lagaboð í gildi sem hér á landi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×