Erlent

Trump hefur rætt við níu þjóðarleiðtoga

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump hefur rætt við Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, en ekki Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.
Donald Trump hefur rætt við Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, en ekki Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur rætt við að minnsta kosti níu þjóðarleiðtoga eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna á þriðjudag. Athygli vekur að hann hefur ekki rætt við leiðtoga stærstu ríkja Evrópu – leiðtoga Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Rússlands.

Í frétt Independent segir að Trump hafi rætt við leiðtoga Egyptalands, Írlands, Mexíkó, Ísrael, Tyrklands, Indlands, Japans, Ástralíu og Suður-Kóreu.

Independent segir að Trump hafi enn ekki rætt við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sem lýsti sambandi Bretlands og Bandaríkjanna sem „sérstöku“ þegar hún óskaði Trump til hamingju með sigurinn í gær. Trump hefur þó ekki heyrt í May frá því að hann var kjörinn, nokkuð sem blaðið segir draga upp efasemdir um hvort samband ríkjanna sé svo „sérstakt“.

Talsmaður Trump segir hann ekki vera með sérstök plön að heimsækja Evrópu áður en hann sver embættiseið þann 20. janúar næstkomandi. May hefur þó sagst vilja eiga fund með Trump við fyrsta tækifæri til að ræða viðskiptatengsl ríkjanna í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Trump átti um tíu mínútna spjall við Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, og bauð honum til að sækja sérstaka veislu í Hvíta húsinu á degi heilags Patreks á næsta ári.

Trump ræddi einnig við Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í um tuttugu mínútur og munu þeir eiga sérstakan fund fyrir leiðtogafund ASEAN-ríkja, í næstu viku.

Í yfirlýsingu frá egypsku forsetaskrifstofunni segir að Abdel Fattah al-Sissi, forseti Egyptalands, hafi verið fyrsti þjóðarleiðtogi heims sem ræddi við Trump eftir að hann varð kjörinn. Ræddu þeir að efla tengsl ríkjanna.

Tim Farron, formaður Frjálslyndra demókrata í Bretlandi, segir í tísti að sú staðreynd að Trump og May hafi ekki rætt saman, fái hann til að halda að Bretland sé nú einhvers staðar „aftarlega í röðinni“ meðal ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×