Messudrengir voru mættir á blaðamannafund Pep Guardiola um síðustu helgi eftir leik Man. City gegn Burnley. Þar nýtti Hjörvar Hafliðason tækifærið til að henda spurningu á spænska stjórann.
Hjörvar spurði Guardiola að því hvort hann hefði ekki áhyggjur af varnarleik liðsins í ljósi þess að liðið hefði aðeins haldið einu sinni hreinu í síðustu fjórtán leikjum liðsins.
„Við verjumst nokkuð vel,“ sagði Guardiola um hæl en það dugði ekki til að þagga niður í okkar manni sem benti Pep réttilega á að lið hans fengi á sig mark í nánast hverjum einasta leik.
„Kannski breytist það einn daginn,“ sagði Pep léttur.
Messan talaði einnig við Sean Dyche, stjóra Burnley, og færði honum Brennivínsflösku.
Sjá má þetta allt saman í innslaginu hér að ofan.
