Erlent

Óttast klofning meðal Sósíalista í Frakklandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Valls og Hollande.
Valls og Hollande.
Framámenn innan franska Sósíalistaflokksins í Frakklandi vinna nú hörðum höndum að því að koma í veg fyrir klofning innan flokksins. BBC greinir frá.

Óttast er að Manuel Valls, forsætisráðherra, muni bjóða sig fram gegn Francois Hollande, sitjandi forseta, í forkosningum flokksins vegna forsetakosninganna í Frakklandi.

Valls hefur gefið slíkt sterklega til kynna en talsmaður ríkisstjórnarinnar segir að fari hann fram gegn Hollande í forkosningunum þurfi hann að segja af sér embætti. Útilokar hann hreinlega að Valls fari fram gegn sitjandi forseta.

Valls sagði í sjónvarpi í gær að hann gæti ekki útilokað að hann myndi bjóða sig fram gegn Hollande. Sagði Valls að hann vildi sýna að ekki væri útilokað fyrir Sósíalista að halda völdum.

Skoðanakannanir gefa til kynna að Hollande myndi aðeins fá níu prósent atkvæða í kosningum. Francois Fillon, forsetaefni Repúblikanaflokksins leiðir skoðanakannanir með 26 prósentum gegn 24 prósentum Marine le Pen, forsetaefni Þjóðfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×