Erlent

Níu daga þjóðarsorg lýst yfir á Kúbu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Aldraður maður hefur stillt upp ljósmyndum af Castro og fleiri byltingarhetjum í höfuðborginni Havana þar sem hann situr á gangstéttinni í hjólastól sínum.
Aldraður maður hefur stillt upp ljósmyndum af Castro og fleiri byltingarhetjum í höfuðborginni Havana þar sem hann situr á gangstéttinni í hjólastól sínum. vísir/epa
Níu daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á Kúbu vegna láts Fidels Castro. Aska hans verður grafin í Santiago de Cuba sunnudaginn 4. desember.

Meðan þjóðarsorgin varir verða öll störf lögð niður og engir opinberir viðburðir haldnir, hvorki tónleikar, leiksýningar né íþróttakappleikir.

Flaggað verður í hálfa stöng, sala áfengis hefur verið stöðvuð og í útvarpi og sjónvarpi verður boðið upp á „upplýsandi, þjóðhollt og sögulegt efni,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórnvöldum.

Skipulagðar hafa verið miklar skrúðgöngur til að heiðra byltingarleiðtogann, sem ríkti þar í tæpa fjóra áratugi. Þá verður fjölmenn samkoma haldin í höfuðborginni, Havana, að kvöldi þriðjudags.

Ríkti á Kúbu í tæpa fjóra áratugi
Handan hafsins, í Miami í Bandaríkjunum, hafa margir íbúar hins vegar fagnað ákaft láti Castros. Þar hefur áratugum saman búið fjöldi fólks sem flúði frá Kúbu vegna harðstjórnar Castros.

„Það sem þú sérð hérna er fólk sem hefur þjáðst,“ segir Tomas Regalado, borgarstjóri í Miami, samkvæmt frásögn á fréttavef dagblaðsins The Miami Herald. „En það sem þú sérð hér er líka mikill fjöldi ungs fólks sem fagnar vegna feðra sinna og afa sem Fidel Castro olli tjóni, réðst á og drap.“

Castro nýtur hins vegar mikilla vinsælda á Kúbu og víða í löndum Suður- og Mið-Ameríku. Þar er hann byltingarhetjan sem stóð uppi í hárinu á Bandaríkjunum áratugum saman.

Jafnvel þótt lífskjör á Kúbu hafi verið frekar bágborin alla tíð síðan hann gerði byltingu árið 1959, þá virðist almenningur upp til hópa sannfærður um velvilja hans í garð þjóðarinnar.

Castro var níræður þegar hann lést á föstudaginn. Bróðir hans Raúl, sem nú er 85 ára, tók við af honum árið 2006, fyrst til bráðabirgða en formlega árið 2008. Hann hefur tilkynnt að hann ætli að segja af sér árið 2018. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×