Erlent

Carlsen vann loks sigur: „Aldrei séð hann svona feginn“

Atli Ísleifsson skrifar
Magnus Carlsen vann loks sigur.
Magnus Carlsen vann loks sigur. Vísir/AFP
Norski stórmeistarinn Magnus Carlsen vann loks sigur á Rússanum Sergei Karjakin í tíundu skák heimsmeistaraeinvígis þeirra í nótt. Báðir eru þeir nú með fimm vinninga hvor þegar eftir á að tefla tvær skákir.

Carlsen var mikið létt þegar hann mætti á fréttamannafundinn að skák lokinni þar sem hann viðurkenndi að síðustu dagar hafi reynst honum erfiðir. „Frábært að vinna skák! Það var langt síðan það gerðist síðast!“

Skák gærdagsins stóð í sex og hálfan tíma en allt ætlaði um koll að keyra þegar þeir Carlsen og Karjakin gerðu báðir tvenn mistök í röð þegar um tvær klukkustundir voru liðnar af skákinni. Smátt og smátt náði Carlsen þó yfirhöndinni og náði að landa sigri.

Norski fréttamaðurinn Ole Kristian Strøm hefur fylgst með Carlsen allt frá árinu 2010 og segist aldrei hafa séð hann jafn feginn og í gærkvöldi. „Það segir ýmislegt um hvað þetta þýddi fyrir hann, hvað hann hefur þurft að fara í gegnum,“ er haft eftir honum í frétt NRK.

Hinn 25 ára Carlsen viðurkenndi í viðtali að hafa verið niðurdreginn síðustu daga og staðan hafi reynt mikið á hann. Hann hefur bersýnilega verið pirraður og þannig strunsaði hann út af fréttamannafundinum eftir að hafa tapað áttundu skákinni. „Ég hafði ekki unnið skák í níu tilraunum, það hefur í raun aldrei gerst áður,“ sagði Carlsen.

Standi leikar enn jafnir að tólf skákum loknum munu þeir tefla atskákir þar til einn þeirra stendur uppi sem sigurvegari. Hvíldardagur er í dag en ellefta skákin verður tefld á laugardag, sú tólfta á mánudag og mögulegar atskákir á miðvikudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×