Enski boltinn

Viðtal íþróttadeildar við Bob Bradley: Hrósar Gylfa í hástert

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bob Bradley, knattspyrnustjóri Swansea City, hefur miklar mætur á Gylfa Þór Sigurðssyni. Þetta kemur fram í viðtali íþróttadeildar 365 við Bandaríkjamanninn.

„Hann er mikilvægur leikmaður. Hann er ekki alltaf mjög málgefinn að eðlisfari en ég held samt að við hvetjum hann á jákvæðan hátt til að taka að sér aukið leiðtogahlutverk,“ sagði Bradley í samtali við Hjörvar Hafliðason á æfingasvæði Swansea.

Gylfi bar fyrirliðabandið hjá Swansea í leiknum gegn Manchester United á dögunum sem sýnir hversu sterk staða hans innan hópsins er.

„Það sýnir að alla daga líta leikmenn upp til hans, að geta hans til að stjórna strákunum í kringum sig er mikilvæg,“ sagði Bradley sem hefur ekki enn tekist að stýra Swansea til sigurs.

„Við vitum að á þessum tíma berjumst við af hörku. Byrjunin á tímabilinu hefur verið erfið, það var skipt um knattspyrnustjóra og það er afar mikilvægt fyrir okkur að allir séu með af heilum hug. Maður treystir á bestu leikmennina. Ég held að Gylfi skilji það og á þessum sex vikum sem ég hef verið hér hefur hann gengt stóru hlutverki og ég mun halda áfram að ýta honum í þá átt.“

Bradley hefur notað Gylfa í ýmsum stöðum á vellinum síðan hann tók við. En hver er besta staða íslenska landsliðsmannsins að mati Bradleys?

„Hann getur verið einhver útgáfa af tíu, hann hefur sveigjanleika til að færa sig bæði til vinstri og hægri, þessi hálfsvæði eru mikilvæg í fótboltanum í dag. Hann getur líka spilað sem „fölsk nía“, einhver sem kemur til baka, gefur hinum miðjumönnunum möguleika en fer inn í teiginn á rétta augnablikinu og verður ógnandi. Þetta ber allt vitni um fjölhæfni hans,“ sagði Bradley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×