Enski boltinn

Gerrard er hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard klæddist síðast Liverpool-treyjunni í góðgerðaleik í janúar.
Steven Gerrard klæddist síðast Liverpool-treyjunni í góðgerðaleik í janúar. Vísir/Getty
Steven Gerrard, leikmaður Liverpool til fjölda ára, hefur tilkynnt að hann er hættur að spila knattspyrnu. Enskir fjölmiðlar, þeirra á meðal BBC, greina frá.

Gerrard er 36 ára gamall og spilaði með Liverpool allan sinn leikmannaferil á Englandi, þar til hann gekk í raðir LA Galaxy árið 2015.

Ferill Gerrard spannaði nítján ár en á þeim tíma lék hann 710 leiki með Liverpool og vann alls átta stóra titla með félaginu. Stærsti sigurinn kom árið 2005 er Liverpool vann Meistaradeild Evrópu.

Gerrard tók við fyrirliðabandi Liverpool árið 2003 og var því fyrirliði félagsins í tólf ár. Hann varð þrívegis enskur bikarmeistari en afrekaði aldrei að verða enskur meistari með Liverpool.

Hann er fjórði leikjahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi með 114 landsleiki. Gerrard spilaði með Englendingum á alls sex stórmótum.

Gerrard var í vikunni orðaður við stjórastöðu Wigan en ljóst er að hann mun ekki taka við því starfi. Hann hefur sömuleiðis verið orðaður við þjálfarastöðu hjá sínu gamla félagi, Liverpool.

Hér má lesa yfirlýsingu Gerrard í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×