Enski boltinn

Sendu pappírana á vitlaust Kongó

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benik Afobe í leik með Kongó.
Benik Afobe í leik með Kongó. Vísir/Getty
Benik Afobe, sóknarmaður Bournemouth, missti af tækifæri til að spila með landsliði sínu á dögunum vegna vandræðalegra mistaka enska knattspyrnusambandsins.

Afobe hafði spilað með yngri landsliðum Englands en hann fæddist í Englandi. Foreldrar eru hins vegar frá Kongó og valdi hann að spila með landsliði Kongó fyrr á þessu ári.

Það eru tvö ríki í Afríku sem heita Kongó. Fullt heiti heimalands Afobe er Lýðstjórnarlýðveldið Kongó (e. DR Congo) en enska knattspyrnusambandið sendi hins vegar öll gögn til Lýðveldisins Kongó (e. The Congo).

„Málið er einfaldlega að enska sambandið sendi gögnin á vitlaust Kongó,“ sagði Afobe í samtali við BBC.

„Það tók tíu daga að færa gögnin á réttan stað og þegar FIFA (Alþjóðaknttspyrnusambandið) var búið að vinna úr þeim öllum var leikurinn búinn að fara fram,“ sagði Afobe en Kongó mætti á dögunum Gíneu og vann, 2-1.

„Það var þó þess virði að fara á staðinn og kynnast liðinu og staðarháttum. Sérstaklega þar sem að við unnum leikinn,“ sagði hann enn fremur.

„Það voru mér vonbrigði að fá ekki að spila en aðalmálið var að komast aftur heill heilsu til Bournemouth.“

Afobe vonast til að komast í landslið Kongó sem spilar í Afríkukeppninni í janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×