Innlent

Segir tafir nefndarinnar vera illa meðferð og kúgun

Þorgeir Helgason skrifar
Erla Bolladóttir boðaði til blaðamannafundar í gær vegna tafa á störfum endurupptökunefndar.
Erla Bolladóttir boðaði til blaðamannafundar í gær vegna tafa á störfum endurupptökunefndar. vísir/ernir
„Skýrsla af einstaklingi sem býr mögulega yfir upplýsingum um hvarf Geirfinns Einarssonar hefur ekkert að gera með umsókn mína um endurupptöku á þessu máli,“ sagði Erla Bolladóttir á blaðamannafundi í gær.

Erla boðaði til fundarins vegna þess að endurupptökunefnd ákvað að fresta því að birta niðurstöðu sína um mögulega endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Það var gert vegna ábendingar frá einstaklingi sem býr mögulega yfir upplýsingum er varða hvarf Geirfinns Einarssonar.

„Í þessu bréfi felast engar upplýsingar sem gagnast mér á nokkurn hátt,“ sagði Erla. Hún segir að forsenda þess að hún sæki um enduruppkvaðningu sé að lög hafi verið brotin við rannsókn málsins og við meðferð þess á báðum dómstigum.

Erla telur að endurupptökunefndin sé að bregðast hlutverki sínu og fari út fyrir lögákveðinn ramma sinn með því að ætla að rannsaka hvað hafi gerst fyrir 42 árum. Hvað varð um Guðmund og Geirfinn hefur ekkert að gera með mína umsókn,“ sagði Erla.

Erla sótti árið 2014 formlega um endurupptöku á málinu. Úrskurður nefndarinnar átti að liggja fyrir núna í nóvember en nú hefur uppkvaðningunni verið frestað fram yfir áramót. „Ég boðaði til þessa fundar vegna þess að ég get ekki beðið grátandi heima hjá mér lengur eftir niðurstöðu. Þessar tafir eru áframhaldandi ill meðferð og kúgun. Ég er orðin 61 árs og vil eiga ævikvöld laus undan þessu máli.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Erla Bolladóttir boðaði til blaðamannafundar í gær vegna tafa á störfum endurupptökunefndar. Fréttablaðið/Ernir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×