Enski boltinn

Nótt inn á klósetti á Old Trafford til einskis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Myndin tengist ekki fréttinni beint. Vísir/Getty
Stuðningsmenn liða í ensku úrvalsdeildinni taka oft upp á ýmsu til að komast á leik með sínu liði. Dæmisaga um það er frá leik Manchester United og Arsenal um helgina þó að dæmið hafi ekki alveg gengið upp að þessu sinni.

Tveir stuðningsmenn Manchester United eyddu nóttinni fyrir leikinn inn á klósetti á Old Trafford með það markmið að sjá stórleik á móti Arsenal í hádeginu daginn eftir.

Umræddir stuðningsmönnum höfðu farið í skoðunarferð um leikvanginn á föstudeginum og tókst þá að lauma sér í burtu frá hópnum og inn á umrætt klósett.

Það tók enginn eftir þeim inn á klósettinu áður en Old Trafford var lokað en þeir fundust hinsvegar við öryggisleit daginn eftir.  Ekki hefur verið gaman að húka inn á klósetti í meira en tólf klukkutíma og enn verra að að ganga í faðm öryggisvarðanna morguninn eftir.

Öryggisverðir færðu stuðningsmennina til lögreglu eftir að þeir fundust en lögreglan í Manchester ákvað að handataka þá ekki. Þeir fengu hinsvegar ekki að sjá leikinn inn á vellinum en hafa eflaust hoppað inn á næsta bar.

Manchester United var aðeins nokkrum mínútum frá því að tryggja sér sigur en Arsenal náði að jafna undir lok leiksins.

Þessi uppákoma vekur upp spurningar um öryggismál en Manchester United hefur gefið það út að engin hætta hafi verið á ferðinni fyrir áhorfendur á leiknum.

Fyrir sex mánuðum var Old Trafford rýmdur fyrir leik á móti Bournemouth og leiknum frestað eftir að grunsamlegur pakki fannst inn á klósetti á vellinum.

Það kom síðan í ljós að þar voru um mistök að ræða hjá starfsmanni öryggisfyrirtækis en ekki hryðjuverkamenn á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×