Innlent

Varð af tíu milljóna króna vinningi í HHÍ

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekki var hægt að skuldfæra kortið í tæka tíð.
Ekki var hægt að skuldfæra kortið í tæka tíð. Vísir/Vilhelm
Maður sem höfðaði mál gegn Happdrætti Háskóla Íslands eftir að hafa ekki fengið tíu milljón króna vinning sem kom upp á miða í hans eigu sem ekki hafði verið greitt fyrir i tæka tíð, tapaði málinu fyrir Héraðsdóm fyrir helgi. Krafðist hann þess að fá vinninginn greiddan en þarf þess í stað að greiða 500 þúsund krónur í málskostnað.

Þann 23. ágúst 2011 keypti maðurinn miða í Happdrætti Háskóla Íslands. Var miðinn „gildur frá og með næsta útdrætti og öllum útdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp af þinni hálfu og greiðsla berst til HHÍ fyrir viðkomandi úrdrátt.“

10. október 2013 komu tíu milljónir á happdrættisnúmer mannsins. Nokkrum vikum áður, 17. september 2013, hafði Happdrættið gert tilraun til þess að skuldfæra greiðslukort mannsins fyrir útdráttinn í október. Ekki tókst að skuldfæra greiðslukortið þar sem notkun kortsins var komin umfram lánamörk þann mánuðinn. Færðist vinningurinn því yfir á næsta mánuð.

Manninum varð kunnugt um þetta í árslok 2014 eða í mars 2015 og skömmu síðar gerði hann kröfu um Happdrætti Háskóla Íslands greiddi honum vinninginn. Taldi hann að HHÍ væri ekki heimilt að líta svo á að númerið væri ekki gilt í útdrættinum. HHÍ hafnaði kröfunni og höfðaði maðurinn því mál gegn HHÍ.

Taldi maðurinn að hann ætti rétt á að númerin hans væru með í öllum útdráttum stefnda þar til honum yrði sannarlega tilkynnt um að áskrift hans hefði verið sagt upp eða henni rift með öðrum formlegum hætti.

Þá taldi hann einnig að HHÍ hefði látið undir höfuð leggjast að láta hann vita að greiðsla fyrir miðann hafi borist. Hann hefði því ekki geta vitað að greiðsla hafi ekki borist.

Maðurinn byggði mál sitt einnig á því að HHÍ hélt áfram að skuldfæra greiðslur á greiðslukorti sínu fyrir næsta útdrátt eftir og gert það allar götur síðan, án tilkynningar eða útskýringa. Taldi hann að af því mætti leiða að samningur aðila var í gildi þegar útdráttur í október 2013 fór fram.

HHÍ bar því hins vegar við að engin skylda væru á herðum HHÍ að tilkynna þegar skuldfærslu er hafnað. HHÍ hélt því eining fram að greiðslusamningur um mánaðarlegar skuldfærslur felli ekki úr gildi skýran skilmála um að greiðsla verði að berast stefnda fyrir hvern útdrátt.

Í dómi Héraðsdóms segir að HHÍ hafi borið að skuldfæra kreditkort stefnanda mánaðarlega fyrir endurnýjuninni. Því bar manninum að sjá til þess að unnt væri að skuldfæra téða greiðslu.

Einnig segir að að ekki hafi verið samið svo um að stefnda hafi borið að reyna ítrekað að skuldfæra greiðsluna eða innheimta andvirði endurnýjunar með öðrum leiðum, svo sem að senda kröfu í heimabanka. Telja verður að það hafi verið umfram skyldu að stefndi tilkynnir að skuldfærsla á kreditkortið hafi mistekist. Skyldan hvíli á stefnda að hafa kort sitt innan lánamarka.

Var HHÍ því sýknað af kröfu mannsins sem greiða þarf hálfa milljón í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×