Enski boltinn

Kane hetja Tottenham gegn West Ham | Sjáðu mörk gærdagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kane fagnar sigurmarki sínu í gær.
Kane fagnar sigurmarki sínu í gær. Vísir/getty
Harry Kane var hetja Tottenham í ótrúlegum 3-2 sigri á nágrönnunum í West Ham í lokaleik gærdagsins í enska boltanum en Kane skoraði tvö mörk undir blálok leiksins sem tryggðu Tottenham stigin þrjú.

West Ham komst í tvígang yfir og virtist ætla að vera fyrsta liðið til að sigra Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í ár en mörk Kane á 89. og 93. mínútu færðu Tottenham sigurinn.

Erkifjendur Tottenham í Arsenal sóttu eitt stig til Manchester-borgar í stórleik helgarinnar en leik Manchester United og Arsenal lauk með 1-1 jafntefli á Old Trafford.

Juan Mata kom Manchester United yfir eftir undirbúning Ander Herrera en varamaðurinn Olivier Giroud bjargaði stigi fyrir Arsenal með marki á 89. mínútu.

Gylfi Þór Sigurðsson virtist hafa tryggt Swansea langþráðan sigur á Goodison Park með marki úr vítaspyrnu en jöfnunarmark Seamus Coleman undir lok leiksins gerði það að verkum að liðin skiptust á stigum.

Þrátt fyrir aragrúa af færum tókst Liverpool-mönnum ekki að skora í markalausu jafntefli gegn Southampton á útivelli en Liverpool hélt þá hreinu í annað sinn í vetur.

Yaya Toure stimplaði sig inn í lið Manchester City á ný en hann skoraði bæði mörk gestanna í 2-1 sigri á Crystal Palace á útivelli í gær.

Var þetta fyrsti leikur Toure í byrjunarliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hann þakkaði svo sannarlega fyrir traustið.

Vandræði ensku meistaranna í Leicester halda áfram en lærisveinar Claudio Ranieri náðu ekki að vinna upp tveggja marka forskot Watford á útivelli eftir að hafa lent undir snemma leiks.

Þá vann Sunderland annan sigur sinn í röð 3-0 á heimavelli gegn Hull en á sama tíma tókst Bournemouth að krækja í þrjú stig gegn Stoke á útivelli.

Sjáðu öll mörk gærdagsins og allt það helsta úr leikjunum hér fyrir neðan.

Manchester United 1-1 Arsenal Crystal Palace 1-2 Manchester City Everton 1-1 Swansea Southampton 0-0 Liverpool Stoke 0-1 Bournemouth Sunderland 3-0 Hull Watford 2-1 Leicester Tottenham 3-2 West Ham Laugardagsupgjör:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×