Ísland er á niðurleið í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi samkvæmt niðurstöðum nýrrar Pisa-könnunnar. Norðurlöndin öll eru fyrir ofan Ísland í öllum flokkum auk þess sem að Ísland er undir OECD-meðaltali í öllum flokkum.
PISA-rannsóknin er framkvæmd á þriggja ára fresti og gefur vísbendingar um breytingar á frammistöðu nemenda yfir tíma ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms. Íslenskir nemendur í 10. bekk tóku þátt í PISA könnuninni vorið 2015 í sjötta sinn.
Frammistaða íslenskra nemenda versnar frá síðustu könnum sem náði til ársins 2012 og líkt og sjá má á gagnvirku korti hér er Ísland á niðurleið í öllum flokkum. Sé miðað við könnunina frá árinu 2006 hefur frammistöðu íslenskra nemenda hrakað.
Íslenskir nemendur fá 467 stig í vísindalæsi þar sem OECD-meðaltalið er 493. Þá fá þeir 485 stig í lesskilningi þar sem OECD-meðaltalið er einnig 493. Að lokum fá íslenskir nemendur 488 stig í stærðfræðiskilningi þar sem OECD-meðaltalið er 490.
Helstu niðurstöður má sjá neðst í fréttinni.
Staðan aldrei verri
Niðurstöðurnar benda til þess að læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hafi hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því að það var fyrst metið árið 2003.
Þetta er mikil breyting á stöðu íslenskra nemenda og hefur hún aldrei verið verri í öllum þremur sviðum PISA og er hún áberandi verri en á hinum Norðurlöndunum. Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur þróunin batnað en í Finnlandi versnar staðan mikið ár frá ári. Finnar er þó enn með mun betri útkomu en aðrar þjóðir.
Singapúr er efst í öllum flokkum en Finnar og Danir eru efst Norðurlanda í stærðfræðilæsi, Finnar leiða einnig í lesskilningi og vísindalæsi.
Sjá má niðurstöður PISA-könnunarinnar hér auk þess sem að skoða má töflur yfir frammistöðu ríkja á vef The Guardian.