Erlent

Hóf skothríð á umdeildum pítsustað

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn gekk inn og miðaði byssunni á starfsmann áður en hann skaut einu skoti í gólfið.
Maðurinn gekk inn og miðaði byssunni á starfsmann áður en hann skaut einu skoti í gólfið. Vísir/EPA
Lögregla í Bandaríkjunum handtók mann sem skaut úr riffli á pítsastaðinn Comet Ping Pong í Washington í nótt. Veitingastaðurinn var skotmark falskrar fréttar sem hefur verið í mikilli dreifingu meðal „alt-right“ fólks svokallaðs um mánaðaskeið. Þar var því haldið fram að Hillary Clinton ræki barnaklámshring úr fyrirtækinu.

Engan sakaði í árásinni en árásarmaðurinn sagðist hafa farið á veitingahúsið til að rannsaka samsæriskenninguna, sem hefur gengið undir nafninu „Pizzagate“.

Maðurinn gekk inn og miðaði byssunni á starfsmann áður en hann skaut einu skoti í gólfið. Hann var með tvær byssur á sér og ein til viðbótar fannst í bílnum hans.

Uppruna samsæriskenningunnar má, samkvæmt BBC, rekja til spjallborða 4chan þar sem umræðurnar byggðu á leka tölvupósta John Pedesta og Wikileaks. Podesta hafði rætt veitingastaðinn í tölvupóstum sínum og einn notandi stakk upp á því að orð eins og ostur, pylsa og pizza væru dulmál fyrir ung börn og kynlíf.

Kenningum þessum, sem byggja á engu, hefur verið dreift á bloggsíðum eins og Infowars, sem Alex Jones, stuðningsmaður Donald Trump, sér um og víðar. Þar á meðal dreifði sonur þjóðaröryggisráðgjafa Trump, Michael Flynn, kenningunni.

Eiganda og starfsmönnum Comet Ping Pong hefur margsinnis verið hótað á samfélagsmiðlum og jafnvel lífláti.

„Ég vona að þeir sem taka þátt í að kynda undir eldana hugsi um það sem gerðist hérna í dag og hætti að dreifa þessum lygum strax,“ sagði James Alefantis, eigandi Comet Ping Pong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×