Það sem blasir við eftir að Kastljós fjallaði um Brúneggjamálið á mánudag er að réttur framleiðandans á Íslandi er mun hærra skrifaður en neytandans. Það er ámælisvert og þarf leiðréttingar við. Það er vakning í neytendamálum í samfélaginu og með tilkomu samfélagsmiðla eru allir á vaktinni – nokkuð sem þeir sem selja vöru og þjónustu ættu að taka tillit til.
Þetta er mat Ólafs Arnarsonar, formanns Neytendasamtakanna. Hann segir það vonbrigði hvað staða íslenskra neytenda er veik. Í því ljósi hafi verið sláandi að sjá sitjandi landbúnaðarráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, segja í viðtali við Kastljós á þriðjudagskvöld að hann vissi ekki hver af samráðherrum hans færi með neytendamál [Ólöf Nordal innanríkisráðherra fer með neytendamál]. Eins rifjar Ólafur upp orð forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jónssonar, þegar reglugerð um vistvæna framleiðslu var afnumin, að ekkert væri því til fyrirstöðu að framleiðendur notuðu merkingar um vistvæna framleiðslu áfram.

„Gunnar Bragi, maðurinn sem ber ábyrgð á búvörusamningunum meðal annars, vissi þetta ekki. Þetta segir okkur bara nákvæmlega hversu hátt neytendamálin eru skrifuð hjá núverandi stjórnvöldum. Þau virðast skipta litlu sem engu máli í þeirra augum,“ segir Ólafur.
„Birtingarmyndin er sú að réttur framleiðandans er mikill og ríkulegur en réttur neytandans er settur til hliðar. Þetta stendur upp úr,“ segir Ólafur sem útilokar ekki hugmyndir Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, um einkavæðingu eftirlitskerfisins – aðspurður um lausnir.
„Maður veltir því fyrir sér, þegar maður sér þetta, hvort við erum að fá þá eftirlitsþjónustu sem við eigum skilið. Ég held ekki og þetta komi því til greina,“ segir Ólafur sem í dag hittir Jón Gíslason, forstjóra Matvælastofnunar, að máli í leit að skýringum á Brúneggjamálinu og öðrum álitamálum sem það hefur vakið upp.
„Það sem hefur breyst er að allir eru á vaktinni. Neytendamál eru í deiglunni – ekki síst vegna tilkomu samfélagsmiðla. Viðbrögð neytenda við þessu máli eru eitthvað sem þeir sem bjóða sína vöru og þjónustu ættu að hafa hugfast,“ segir Ólafur.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu