Erlent

Samskipti Noregs og Kína eðlileg á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Vísir/AFP
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, greindi frá því á norska þinginu í morgun að samskipti Noregs og Kína séu aftur komin í eðlilegt horf. NRK greinir frá þessu. 

Samskipti ríkjanna hafa verið við frostmark allt frá því að norska Nóbelsnefndin ákvað að veita kínverska baráttumanninum Liu Xiaobo Friðarverðlaun Nóbels árið 2010.

Solberg sagði í ræðustól þingsins að Noregur hafi ekki átt í pólitískum samskiptum við Kína frá árinu 2010 og að ástandið hefði oft reynst Norðmönnum erfitt, sérstaklega aðilum í norsku viðskiptalífi.

Solberg segist mjög ánægð með að málið hafi verið leyst og að unnið hafi verið að bættum samskiptum ríkjanna um langt skeið. Nýir möguleikar komi til með að opnast á ný og að mikilvægt sé fyrir Noreg að eiga í góðum samskiptum við stærsta hagkerfi heims og ríki sem á fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Norski utanríkisráðherrann Børge Brende er nú staddur í kínversku höfuðborginni Beijing og segir að viðræður um fríverslunarsamning ríkjanna verði nú teknar upp að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×