Erlent

Prófessorar lýsa yfir þungum áhyggjum af geðheilsu Trumps

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/EPA
Þrír virtir prófessorar í geðlæknisfræði hafa skrifað bréf til Baracks Obama Bandaríkjaforseta þar sem þeir viðra þungar áhyggjur sínar af geðheilsu Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna. 

Prófessorarnir þrír, Judith Hermann, Nanette Gartrell og Dee Mosbacher, starfa við Harvard háskóla og Kaliforníuháskóla. 

Í bréfinu hvetja þær Obama til þess að láta framkvæma mat á andlegri helsu Trumps áður en hann verður vígður í embætti í janúar. Þær vilja ekki slá því á fast hvaða geðsjúkdóm þær telja Trump glíma við en staðhæfðu að mikilmennskutilburðir hans, hvatvísi og óhófleg viðkvæmni fyrir gagnrýni gerðu það að verkum að hann væri vanhæfur í embætti forseta. 

Að sama skapi töldu þær að Trump væri óhæfur að greina á milli ímyndunar og veruleika. 

Bréfið má lesa í heild sinni hér

Prófessorarnir þrír eru ekki þeir fyrstu til þess að velta vöngum yfir geðheilsu Trumps. Barack Obama lýsti því yfir í ágúst á þessu ári að dómgreind Trumps og skapgerð hans gerði hann óhæfan til þess að sinna hlutverki forseta. 

Barack Obama lýsti því yfir í ágúst á síðasta ári að Trump væri óhæfur til þess að gegna embætti forseta.Vísir/AFP
Kom Trump upp um óöryggi sitt á Twitter?

Umræða um geðheilsu Trump var ekki síður áberandi í gær en hinn verðandi forseti sagði í tísti að Kínverjar hefðu stolið dróna í eigu bandaríska sjóhersins.

Í tístinu sagði hann að gjörð Kínverjanna væri fordæmalaus, eða „unprecedented“ á enskri tungu. Hins vegar stafsetti hann orðið óvart „unpresidented“ og Twitter logaði í kjölfarið. Skömmu síðar eyddi Trump tísti sínu og birti það aftur með orðinu rétt stafsettu.

Sumir tístarar gengu langt í að lesa í rangfærsluna, einhverjir vildu meina að villan endurspeglaði óöryggi hans gagnvart embættinu á meðan aðrir gerðu grín að vankunnáttu hans í stafsetningu. 

Þora ekki að segja til um sjúkdómsgreininguna

Prófessorarnir þrír veigruðu sér við að fullyrða nákvæmlega um hvaða geðveila kynni að vera að hrjá Trump en sálfræðingar telja að ekki sé rétt að sjúkdómsgreina fólk án þess að hafa hitt einstaklinginn í persónu.

Hins vegar velti Huffington Post því upp í umfjöllun sinni um bréfið að Trump gæti mögulega verið að kljást við svokallaða sjálfhverfa persónuleikaröskun.

Samkvæmt Samtökum bandarískra sálfræðinga (APA) hrjáir sjálfhverf persónuleikaröskun um eitt prósent fólks.

Í stuttu máli sagt felst sjálfhverf persónuröskun í hegðunarmynstri sem einkennist af mikilmennsku, þörf fyrir aðdáun annarra og skort á samúð.

Hér fyrir neðan má upprunalegt tíst Trumps:


Tengdar fréttir

Trump sagði Obama vera stofnanda ISIS

Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikana sagði í ræðu á kosningafundi í Flórída í gær að Barack Obama Bandaríkjaforseti væri stofnandi hryðjuverkasamtakanna ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×