Erlent

Forsætisráðherra Ástralíu vill að landið verði lýðveldi eftir daga Elísabetar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Malcolm Turnbull.
Malcolm Turnbull. Vísir/EPA
Malcom Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu hélt ræðu á fundi ástralskra lýðveldissinna nú um helgina þar sem hann tjáði þá skoðun sína að Ástralía ætti að verða að lýðveldi eftir daga Elísabetar Englandsdrottningar. Guardian greinir frá.

Ástralía hefur frá því að landið fékk fullveldi verið með þingbundna konungsstjórn og er Elísabet þjóðhöfðingi ríkisins. Turnbull fór sjálfur fyrir hreyfingu lýðveldissinna árið 1999 þegar Ástralir héldu þjóðaratkvæðagreiðslu um stofnun lýðveldis, en meirihluti þjóðarinnar kaus gegn því.

Tillaga lýðveldissinna þá var sú að þjóðhöfðingi landsins yrði forseti sem kosinn yrði af þinginu. Sagði Turnbull um helgina að hann teldi það hafa verið mistök.

Margir Ástralir hefðu verið áhyggjufullir um að stjórnmálamenn landsins hefðu þá of mikil völd á kostnað fólksins. Lagði hann því til að haldin yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem Ástralir myndu kjósa um það hvernig forseti landsins yrði valinn.

Turnbull lagði þó áherslu á að hann teldi að Ástralir ættu ekki að huga að stofnun lýðveldis á meðan Elísabet væri drottning vegna þeirrar gífurlegu virðingar sem þjóðin bæri fyrir henni. 

Ástralir myndu einfaldlega ekki styðja stofnun lýðveldis og að slíta tengslin við breska konungsveldið á meðan hún væri enn á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×