Erlent

Donald Trump þakkar svörtum fyrir að hafa haldið sig heima á kjördag

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Trump þakkar kjósendum sínum í Pennsylvaníu.
Trump þakkar kjósendum sínum í Pennsylvaníu. visir/epa
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjana, telur að það hafi verið snjallt af svörtum Bandaríkjamönnum að sitja heima á kjördag í stað þess að kjósa Hillary Clinton. Þetta sagði hann í ræðu sinni í gær fyrir fullu húsi stuðningsmanna í borginni Hershey í Pennsylvaníu.

„Við náðum miklum árangri í samfélagi svartra,“ sagði Trump.

Hann hlaut þó aðeins atkvæði átta prósenta svartra kjósenda en telur að hann hafi stuðlað að því að svartir hafi ákveðið að sniðganga Hillary Clinton.

„Ég talaði um glæpi, atvinnuleysi og skort á menntun,“ sagði hann. „Þeir áttuðu sig á þessu og létu það vera að fara út á kjördag til þess að kjósa Hillary.“ Að lokum þakkaði hann svörtum Bandaríkjamönnum fyrir þessa skynsamlegu ákvörðun og bað fólkið í salnum að gera slíkt hið sama.

Trump er um þessar mundir á ferðalagi um Bandaríkin í tilefni sigurs síns í forsetakosningunum. Á ferðalaginu heimsækir hann fylkin sem hann vann í því skyni að þakka kjósendum fyrir atkvæði sín.

„Allir frambjóðendur sem fara frá Pennsylvaníu halda að þeim takist að vinna...en svo tapa þeir með miklum mun,“ sagði Trump við áhangendur sína í fylkinu.

Eins og kunnugt er sigraði Trump óvænt í Pennsylvaníufylki í forsetakosningunum en hann er fyrsti Repúblíkaninn sem fagnar sigri þar frá því 1988.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×