Enski boltinn

Guardiola vill fá eitthvað af þolinmæðinni sem Sir Alex Ferguson fékk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Sir Alex Ferguson.
Pep Guardiola og Sir Alex Ferguson. Vísir/Getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist ekki vita hvort að hann fá þann tíma sem hann þarf til að byggja upp árangursríkt lið á Etihad-leikvanginum.

Manchester City tapaði 4-2 á móti Leicester City um helgina og er því stigalaust í undanförnum tveimur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

City-liðið er nú sjö stigum á eftir toppliði Chelsea og það sem er mikið áhyggjuefni er að leikmenn Guardiola hafa aðeins landað fjórum sigrum í síðustu fimmtán leikjum í öllum keppnum.

Ensku blöðin slá því upp í morgun að Guardiola sé hreinlega farinn að óttast um að halda starfi sínu hjá Manchester City. Hann var spurður um það á blaðamannafundi fyrir leik á móti Watford í kvöld.  

„Ég veit ekki hvort ég fái þann tíma sem ég þarf. Ég vil ekki hugsa um það. Allt getur gerst. Mitt starf er starf sem þarf á úrslitum að halda,“ sagði Pep Guardiola.

Spænski stjórinn er samt ekkert að fara að gefast upp þótt móti blási þessar vikurnar.

„Ég er ekki á förum. Næsta tímabil verður betra. Eftir tvö ár verðum við síðan ennþá betri,“ sagði Guardiola.

„Ég þarf að fá tíma en ef við skoðum bara síðasta mánuð þá hefur mér mistekist,“ sagði hinn 45 ára gamli Pep Guardiola.

Guardiola tók síðan Sir Alex Ferguson sem dæmi þegar hann talaði um að félög í ensku úrvalsdeildinni þyrftu að sýna þolinmæði.

„Sir Alex Ferguson vann ekki titilinn í ellefu ár. Liverpool hefur ekki unnið hann í 25 ár,“ sagði Guardiola og bætti við:

„Ég verð að sætta mig við það að úrslitin hafa ekki verið góð undanfarinn mánuð. Við verðum hinsvegar að bæta það sem ég trúi á en ekki breyta því sem ég trúi á. Þegar hlutirnir ganga ekki alveg upp þá verður þú að vera sterkur,“ sagði Guardiola.

„Ég verð að sætta mig við skoðanir allra, fyrrum leikmanna og fjölmiðlamanna af því að við unnum ekki leikina okkar. Ég vona og óska samt eftir því að ég fái aðeins meiri tíma,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×