Bandaríski tæknirisinn Apple hefur loks gefið út Airpods, þráðlaus heyrnartól fyrirtækisins, sem kynnt voru samhliða iPhone 7 í haust. Upphaflega áttu heyrnartólin að koma út í október.
Í sama mánuði tilkynnti Apple um að það þyrfti að fresta útgáfunni án þess að gefa nánari skýringar en afar sjaldgæft er að bandaríski tæknirisinn lendi í vandræðum með að gefa út vörur sem áður hafa verið auglýstar.
Á vefsíðu Apple má sjá að hægt er að kaupa heyrnartólin en um tvær vikur tekur að koma þeim til kaupenda. Óvíst er hvenær heyrnartólin mæta í búðir hér á landi en í Bandaríkjunum kosta þau 159 dollara, um átján þúsund krónur.
Airpods vöktu mikla athygli þegar þau voru kynnt til sögunnar enda er ekkert tengi fyrir heyrnartól á iPhone 7 símum Apple. Neyðast því margir til þess að nota þráðlaus heyrnartól í takt við iPhone 7 síma sína.
Þráðlaus heyrnartól Apple komin út eftir töluverða töf

Tengdar fréttir

Apple frestar útgáfu þráðlausu heyrnartólanna
Fyrirtækið segir að heyrnartólin séu ekki tilbúin til sölu.