Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan en samskiptin hafa þó batnað allra síðustu ár.
Árið 1972 tóku Bandaríkin upp stefnu sem nefnist „Eitt Kína“. Það var gert eftir fund Richard Nixon og Mao. Sendiráði Bandaríkjanna í Taívan var lokað árið 1979. Bandaríkin hafa þó alla tíð síðan átt í nánum óopinberum samskiptum við yfirvöld í Taipei.
Samkvæmt lögum frá 1979 eru Bandaríkin skyldug til að koma Taívan til varnar geri Kínverjar innrás.
Það vakti mikla athygli í síðustu viku þegar Trump tók við símtali frá forseta Taívan og var það í fyrsta sinn sem forseti Bandaríkjanna, eða verðandi forseti, ræddi beint við forseta Taívan um árabil. Trump segir símtalið ekki hafa verið sérstaklega skipulagt, en því hefur verið haldið fram af fjölmiðlum ytra.
Sjá einnig: Símtalið umdeilda hluti af skipulagðri stefnubreytingu
Trump segist ekki vilja taka við skipunum frá Kína og að ljóst sé að Bandaríkin þurfi að semja við Kína um ýmis málefni eins og viðskipti og tolla.
„Að viðhalda meginreglunni um eitt Kína er grundvöllur sambands Kína og Bandaríkjanna,“ sagði Geng Shuang, talsmaður ráðuneytisins, við blaðamenn. „Ef sá grundvöllur er skemmdur, eða ekki til staðar, er hin heilbrigða þróun sambands Kína og Bandaríkjanna og samvinna í mikilvægum málefnum út úr myndinni.“
Hann sagði einnig að jákvætt samband Kína og Bandaríkjanna væri ekki einungis mikilvægt fyrir ríkin tvö, heldur einnig fyrir „frið, stöðugleika, þróun og velmegun í Kyrrahafsríkjum Asíu og á alþjóðavísu“.