Innlent

Villikettir safna fé til að leysa kattadráp í Hafnarfirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að undanfarna viku hefðu þrír kettir verið lagðir inn á Dýraspítalann í Garðabæ en enginn þeirra lifði af.
Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að undanfarna viku hefðu þrír kettir verið lagðir inn á Dýraspítalann í Garðabæ en enginn þeirra lifði af. Vísir/Getty
Félagið Villikettir, sem hefur það að markmiði að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta á Íslandi, hefur tekið að sér að halda utan um söfnun á verðlaunafé handa þeim sem kemur með upplýsingar sem leiða til ákæru á þeim sem er ábyrgur fyrir því að eitra fyrir köttum í nágrenni Hellisgerði í Hafnarfirði.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að undanfarna viku hefðu þrír kettir verið lagðir inn á Dýraspítalann í Garðabæ en enginn þeirra lifði af. Leikur grunur á að eitrað hafi verið fyrir köttunum með frostlegi. Kettirnir áttu það allir sameiginlegt að búa nærri Hellisgerði í Hafnarfirði.

Stjórn Villikatta segist ætla að leggja fram 20 þúsund krónur úr vasa stjórnarmeðlima til að hefja söfnunina.

„Ef þetta verður ekki til að upplýsa málið þá rennur verðlaunaféð jafnt í Sjúkrasjóð VILLIKATTA og til DÝRAHJÁLPAR,“ segir í Facebook-færslu Villikatta um söfnunina.

Þeir sem hafa upplýsngar um málið er bent á að hafa samband við lögregluna í sím 444-1000 eða senda tölvupóst á abending@lrh.is.

Villikettir deila mynd af kettinum Frosta sem var einn þeirra sem grunað er að hafi verið eitrað fyrir. Frosti var einn af köttunum sem Villikettir björguðu í hús sumarið 2015 af villikattasvæði í Hafnarfirði.


Tengdar fréttir

Kettir drepast á dularfullan hátt

Grunur er um að eitrað hafi verið fyrir þremur köttum nærri Hellisgerði í Hafnarfirði. Enginn þeirra lifði af. Kettirnir kveljast mikið áður en þeir drepast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×