Kennarar í fjórum leikskólum og þremur grunnskólum samþykktu einróma í gær að boða til verkfallsaðgerða. 82 prósent kennara í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi samþykktu að leggja niður störf frá 29. október til 20. desember.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í gær að ekki væri útilokað að fleiri skólar myndu bætast í hópinn.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir í samtali við Vísi að undirbúningur að verkfallsaðgerðum sé þegar hafinn í einum framhaldsskóla til viðbótar. Hann segir að fyrirkomulagið þar verði eins og annars staðar, ekki verði tilkynnt um hvaða skóla ræðir fyrr en að atkvæðagreiðslu um aðgerðir lokinni.
Þá vill Guðjón Hreinn ekki segja hvenær til stendur að greiða atkvæði um aðgerðirnar eða hvenær þær kæmu til framkvæmda, yrðu þær samþykktar.