Englandsmeistarar Leicester City sýndu allar sínar bestu hliðar þegar þeir tóku Manchester City í karphúsið á heimavelli. Jamie Vardy skoraði þrennu í 4-2 sigri Refanna.
Arsenal komst á toppinn með 3-1 sigri á Stoke City á Emirates. Charlie Adam kom Stoke yfir með marki úr vítaspyrnu en mörk frá Theo Walcott, Mesut Özil og Alex Iwobi tryggðu Skyttunum stigin þrjú.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar Swansea City lyfti sér upp úr fallsæti með 3-0 sigri á Sunderland. Fernando Llorente skoraði tvívegis fyrir Swansea sem er búið að vinna tvo heimaleiki í röð.
Það var fátt um varnir þegar Hull City og Crystal Palace mættust í fallslag á KCOM vellinum. Niðurstaðan varð 3-3 jafntefli.
Burnley heldur áfram að safna stigum á heimavelli og vann 3-2 sigur á Bournemouth á Turf Moor.
Þá vann Watford Everton með þremur mörkum gegn tveimur.
Mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér að neðan.