Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Manchester United stefnir á fimm í röð | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Átta leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag og hefst veislan með frumraun Crystal Palace undir stjórn Sam Allardyce gegn Watford.

Klukkan 15:00 hefjast svo sex leikir en lokaleikur dagsins er á milli Hull og Manchester City.

Lærisveinar David Moyes í Sunderland eiga erfitt verkefni fyrir höndunum þegar þeir mæta Manchester United á Old Trafford í dag.

Manchester United hefur unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum fyrir leik dagsins og eru strákarnir hans Jose Mourinho farnir að klífa upp töfluna.

Sunderland hefur unnið fjóra leiki af síðustu sjö en það verður erfitt að ná stigum gegn liði Manchester United sem hefur spilað betur undanfarnar vikur.

Arsenal tekur á móti West Brom á heimavelli en Skytturnar þurfa nauðsynlega á sigri að halda eftir tvo tapleiki í röð.

Íslendingarnir í ensku úrvalsdeildinni, Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson, verða báðir í eldlínunni í dag.

Jóhann sem hefur verið meiddur undanfarnar vikur gæti snúið aftur í lið Burnley í mikilvægum leik gegn Middlesbrough á heimavelli.

Gylfi og félagar í Swansea mega varla við að tapa fleiri stigum í fallbaráttunni þegar þeir taka á móti West Ham sem hefur unnið tvo leiki í röð.

Chelsea stefnir á tólfta sigurinn í röð þegar þeir taka á móti Bournemouth á heimavelli en Diego Costa og NGolo Kante taka báðir út leikbann hjá Chelsea í dag.

Þá taka Englandsmeistararnir í Leicester á móti Everton en þar mætast tvö af kaldari liðum deildarinnar.

Leicester hefur aðeins fengið sex stig úr síðustu átta leikjum en Everton hefur aðeins fengið tíu stig úr síðustu tólf leikjum.

Leikir dagsins:

12.30 Watford - Crystal Palace

15:00 Arsenal - West Brom

15:00 Burnley - Middlesbrough

15:00 Chelsea - Bournemouth

15:00 Leicester - Everton

15:00 Manchester United - Sunderland

15:00 Swansea - West Ham

17:30 Hull City - Manchester City




Fleiri fréttir

Sjá meira


×