Í dag birtist á vefsíðu ESPN einkunnaspjald fyrir öll liðin í ensku úrvalsdeildinni. Liðunum 20 er þar gefin einkunn fyrir frammistöðu þeirra til þessa á tímabilinu.
Swansea fær F í kladdann, eða sannkallaða falleinkunn. Jákvæðu punktarnir hjá liðinu eru fáir, miklu færri en þeir neikvæðu.

Í umsögninni um Gylfa segir Hicks að það virðist ekki breyta neinu hversu illa liðsfélagar Íslendingsins spili, hann standi alltaf fyrir sínu. Hicks segir jafnframt að Gylfi hafi átt það til að týnast í leikjum á meðan Garry Monk var knattspyrnustjóri liðsins. En eftir að Monk var rekinn hafi íslenski landsliðsmaðurinn verið frábær.
Hicks segir að Gylfi fari fremstur í flokki þegar Swansea pressar og sé sískapandi í sókninni. Gylfi hefur skorað fimm mörk og gefið fimm stoðsendingar á tímabilinu og hefur komið með beinum hætti að helmingi marka liðsins í ensku úrvalsdeildinni.
Að mati Hicks væri Swansea sennilega fallið ef ekki væri fyrir Gylfa. Hann segir jafnframt að svo lengi sem Gylfi haldist heill eigi Swansea möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.
Einkunnaspjald Swansea má skoða með því að smella hér.
Swansea er í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 12 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.
Gylfi og félagar taka á móti West Ham United á öðrum degi jóla.