Enski boltinn

Lánlausir Svanirnir töpuðu þriðja leiknum í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson svekktur á heimavelli í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson svekktur á heimavelli í dag. vísir/getty
Swansea gæti endað annan dag jóla í botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar ef úrslitin í leik Hull og Manchester City seinna í dag verða því óhagstæð.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar töpuðu þriðja leiknum í röð í deildinni í dag þegar liðið steinlá á heimavelli, 4-1, gegn West Ham sem er nú komið á skrið og er búið að vinna þrjá leiki í röð.

Ganverjinn André Ayew, sem spilaði með Swansea í fyrra, kom gestunum á bragðið strax á 13. mínútu en staðan var 1-0 í hálfleik. Varnarmennirnir Winston Reid og Michail Antonio bættu við tveimur mörkum á 50. og 78. mínútu, en með þeim gerðu gestirnir út um leikinn.

Spænski framherjinn Fernando Llorente klóraði í bakkann fyrir Swansea með marki á 89. mínútu en það var bara alltof lítið og alltof seint. Niðurlægingunni var ekki lokið því Andy Carroll innsiglaði 4-1 sigur West Ham.

Gylfi Þór Sigurðsson var allt í öllu að vanda hjá Swansea. Hann átti endalaust af fyrirgjöfum í leiknum, skalla sem var varinn í horn og þá átti hann eina fína aukaspyrnu sem því miður rataði ekki í netið.

Swansea-vörnin heldur áfram að sýna að hún er sú versta í deildinni, en liðið er nú búið að fá á sig 19 mörk í síðustu sex leikjum og halda einu sinni hreinu á því tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×