Innlent

Alda Hrönn: Sárt að hafa alltaf lagt sig alla fram en samt verið leyst frá störfum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ég hef unnið vinnuna mína að mínu mati mjög samviskusamlega og samkvæmt lögum alla tíð. Það er mjög sárt að hafa lagt sig 150 eða 200 prósent fram í langan tíma og verið síðan settur til hliðar fyrir eitthvað sem maður veit að er ekki satt. Það er mjög erfitt,“ sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í Bítinu í morgun.

Héraðssaksóknari hefur látið mál á hendur Öldu Hrönn, vegna LÖKE-málsins svokallaða, niður falla þar sem málið þótti ólíklegt til sakfellingar. Alda Hrönn var kærð af Gunnari Scheving Thorsteinssyni og starfsmanni Nova fyrir brot á friðhelgi einkalífs þeirra, aðdróttanir í þeirra garð og hvernig rannsókn hennar á LÖKE var unnin en málið snerist um að myndir úr lokuðu kerfi lögreglunnar, LÖKE, hefðu farið í dreifingu.

Deilt er um hvort Alda Hrönn hafi haft vald til þess að hefja rannsókn á samskiptum lögreglumannsins. Málið var fyrst skráð í apríl 2014 í skráarkerfi lögreglu en rannsókn Öldu Hrannar hófst hins vegar í að öllum líkindum í byrjun september árið áður. Samkvæmt lögreglulögum hafi hún ekki haft vald til að rannsaka störf lögreglumanns. Aðeins ríkissaksóknari hafi haft það vald.

Samkvæmt gögnum setts héraðssaksóknara var Öldu Hrönn gefin munnleg heimild til rannsóknar málsins.

Ekki útilokað að leggja fram kæru vegna málsins

Alda Hrönn ræddi málið í Bítinu í morgun en hún sagðist ekki geta rætt málið efnislega þar sem hún væri bundin þagnarskyldu. Hún sagði að ekki væri búið að taka ákvörðun um hvenær hún muni snúa aftur til starfa og þá útilokaði hún ekki að leggja sjálf fram kæru vegna málsins.



„Það var samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara sem þessi rannsókn fór fram. Þá var ég í raun bara starfsmaður á plani, eins og menn segja,“ sagði hún, en lögmaður Gunnars Scheving hefur sagt það eftiráskýringu að Alda Hrönn hafi fengið munnlega heimild til rannsóknarinnar og hyggst áfrýja niðurstöðunni til setts ríkissaksóknara.

Alda Hrönn sagði að um væri að ræða fordæmalaust mál því þarna sé einstaklingur kærður, ekki embættið í heild. Hún hafi verið í ómögulegri stöðu því málið hafi farið hátt í fjölmiðlum en að sjálf hafi hún ekki mátt verja sig, lögum samkvæmt. Alda segir þetta hafa verið erfiða lífsreynslu.

„Þetta er mjög sértæk lífsreynsla að ganga í gegnum og þetta hefur sannarlega áhrif. En allir erfiðleikar eru þannig að þeir þroska mann og gera mann að betri manneskju ef maður nær að spila þannig úr því.“

Aðspurð segir hún að mögulega hefði hún gert ýmislegt öðruvísi, en neitar því þó alfarið að hafa gerst brotleg í starfi. „Að eitthvað hafi gerst sem var saknæm háttsemi er bara fjarstæðukennt, og það hefur í rauninni komið fram. Vegna þess að ríkissaksóknari fyrir löngu síðan gaf það út að það hafi ekkert verið athugavert við málsmeðferðina en samt er haldið áfram.“

Alda Hrönn segir að næstu skref verði að halda gleðileg jól og svo í framhaldinu að skoða málið frekar með lögfræðingi sínum.

Hlusta má á viðtalið við Öldu Hrönn í heild í spilaranum hér fyrir ofan. 


Tengdar fréttir

Alda Hrönn stígur til hliðar vegna ásakana um að hafa misbeitt valdi sínu

Lúðvík Bergvinsson héraðsdómslögmaður er settur héraðssaksóknari í máli sem varðar ásakanir á hendur Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðllögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en hún er sökuð um að hafa misbeitt lögregluvaldi við rannsókn á LÖKE-málinu svokallaða.

Kæra á hendur Öldu Hrönn felld niður

Ekki eru líkur á sakfellingu að mati Lúðvíks Bergvinssonar, setts héraðssaksóknara í máli aðallögfræðings lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðingu. Verður áfrýjað segir Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður kæranda.

Alda Hrönn á fullum launum á meðan rannsókn stendur yfir

Laun Öldu Hrannar Jóhannsdóttur aðallögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru óskert þrátt fyrir að hún sé nú í ótímabundnu leyfi frá störfum vegna rannsóknar Lúðvíks Bergvinssonar setts héraðssaksóknara á meintum brotum Öldu Hrannar í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×