Fleira er hefðbundið við tónleika kvöldsins hjá Hymnodiu, til dæmis dagsetningin, að sögn Eyþórs Inga. „Við erum alltaf með tónleikana 22. desember. Það er svo margt í boði fyrir jólin, glaðlegir tónleikar og jólasveinafjör, en við viljum að fólk upplifi ró og rökkur og því verða ljósin dempuð í kirkjunni og tónlistin hátíðleg.“
Tvö ný lög verða frumflutt að sögn Eyþórs Inga. Þau eru eftir Michael Jón Clarke og Sigurð Flosason. Auk þess verða góðkunnir jólasálmar sungnir, ensk endurreisnarlög, gömul þýsk og norræn jólalög og tvö lög sem alltaf eru sungin á jólatónleikunum, Það aldin út er sprungið og Heims um ból, það síðarnefnda í sjö radda hátíðarútsetningu. Eyþór Ingi er spurður frekar út hana.
„Ég hef ekki heyrt þessa sjö radda útsetningu á Heims um ból hér á landi nema í flutningi Hymnodiu en hún hefur hljómað á öllum okkar jólatónleikum og er á diskinum okkar. Ég heyrði hana Svíþjóð en hún er eftir Þjóðverja,“ útskýrir hann.

„Mér þykir rosalega vænt um fyrirkomulagið á tónleikunum, hátíðleikann, kyrrðina og svo það að ná alltaf að frumflytja eitthvað nýtt og líka að vera með lög sem allir þekkja en kannski í nýjum útsetningum. Þessir jólatónleikar hafa alltaf verið vel sóttir hjá okkur og ég vona að svo verði einnig nú.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. desember 2016.