Innlent

Jólin að öllum líkindum hvít í ár

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Nú má nokkurn veginn slá föstu að það verði hvít jól nánast um allt land.
Nú má nokkurn veginn slá föstu að það verði hvít jól nánast um allt land. vísir/gva
Flest bendir til þess að jólin verði hvít um nánast allt land í ár. Nýjustu spár gera ráð fyrir að á Þorláksmessu verði vaxandi norðaustan- og austanátt og víða snjókoma en talsverð slydda eða rigning austast á landinu.

Á aðfangadagskvöld klukkan 18 er búist við fremur rólegum vindi á landinu, innan við 10 metrum á sekúndu, snjókomu norðaustantil og lítils háttar éljum, en að úrkomulaust verði annars staðar. Útlit er fyrir stífan vind með snjókomu á jóladag.

Á vef Veðurstofunnar segir að unnið sé eftir spá frá Reiknistöð evrópskra veðurstofa, sem sé líklegust til að rætast, en hún var birt á sjöunda tímanum í morgun. Fylgst hafi verið stíft með spám fyrir Þorláksmessu, aðfangadag og jóladag, en að allar spár séu nokkuð sammála um að ekki sé gert ráð fyrir að það hlýni að neinu ráði. Óvíst sé hins vegar hversu mikið snjói þessa daga.

Gert er ráð fyrir hægum vindi á landinu með breytilegri átt, þremur til átta metrum á sekúndu. Talið er að eitthvað muni snjóa í flestum landshlutum í dag og að líkur séu á dimmum éljum á sunnanverðu landinu. Þá kólnar í dag og síðdegis má búast við frosti á bilinu tvö til tíu stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Á morgun fer aðeins að blása en þá er búist við suðvestan átta til þrettán metrum á sekúndu með éljum, en úrkomulaust norðaustanlands. Áfram kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×