Lífið

Léttist um fimmtíu kíló á einu ári með því að borða aðeins eina fæðutegund

Stefán Árni Pálsson skrifar
Taylor hefur algjörlega snúið við blaðinu.
Taylor hefur algjörlega snúið við blaðinu.
Líklega eru til fleiri megrunaraðferðir en íbúar á Íslandi. Kolvetni eru talin vera nokkuð fitandi en Andrew Taylor léttist um 50 kíló á einu ári með því að borða bara kartöflur, en kartöflur eru taldar vera mjög kolvetnisríkar.

Hann ákvað þetta í byrjun janúar á þessu ári og hélt hann matarræðinu til streitu allan tímann.

„Ég var mjög þunglyndur á síðasta ári og að borða aðeins kartöflur hjálpaði mér út úr því ástandi,“ segir Taylor í samtali við news.com.au.

„Ég er ekki á neinum þunglyndislyfjum og mér finnst ég vera læknaður af þunglyndinu og síðan sef ég svo miklu betur. Að borða bara kartöflur hefur bætt líf mitt meira en ég hefði nokkur tímann getað ímyndað mér.“

Taylor segir að í byrjun ársins hafi hann fundið fyrir mikilli matarfíkn.

Hann eyddi oft mörgum dögum í það að drekka gosdrykki, borða djúpsteiktan mat, ís, kökur, súkkulaði og pítsur.

„Ég var einfaldlega matarfíkill og sá enga leið út. Ef þú ert alkahólisti, þá er hægt að drekka áfengi en þú getur aldrei bara hætt að borða. Mig langaði að hætta að borða og því fannst mér tilvalið að velja bara eina tegund sem ég borðaði í öll mál. Kartöflur komu í raun fyrst í hugann.“

Taylor borðar um þrjú til fjögur kíló af kartöflum á hverjum einasta degi. Leyndarmálið er að hann leyfir sér aldrei að verða svangur. Fyrir einu ári var hann um 150 kíló en nú eru fimmtíu farin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×