Viðskipti innlent

Sigrún Ragna farin frá VÍS

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórn VÍS og Sigrún Ragna Ólafsóttir, forstjóri félagsins, komust í gær að samkomulagi um að hún láti af störfum hjá félaginu. Stjórnin hefur ákveðið að ráða Jakob Sigurðsson forstjóra VÍS.

VÍS birti uppgjör í siðustu viku sem var undir væntingum, bæði hvað varðar vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 238 milljónum króna. Í afkomutilkynningunni sagði Sigrún Ragna að afkoma af vátryggingastarfsemi litast enn af því að tap er af bæði frjálsum og lögboðnum ökutækjatryggingum. „Vöxtur iðgjalda var þó ágætur á fyrri helmingi ársins og hækkuðu innlend bókfærð iðgjöld um 11,6% frá sama tímabili í fyrra,“sagði Sigrún Ragna. 

Jakob Sigurðsson,  nýr forstjóri VÍS, starfaði sem forstjóri Promens á árunum 2011-2015, var framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Íslenskrar erfðagreiningar frá 2006-2011 og framkvæmdastjóri Alfesca, áður SÍF, frá 2004-2006. Hann gegndi áður stjórnunarstöðum hjá alþjóðlega efnafyrirtækinu Rohm and Haas í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Sigrún Ragna hafði starfað hjá VÍS í fimm ár og leiddi félagið meðal annars í gegnum skráningarferli þegar félagið var skráð á Nasdaq Ísland. Hún var eina konan sem gegndi forstjórastöðu í skráðu félagi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×