Viðskipti innlent

Frystar hvalaafurðir Hvals hf metnar á 3,6 milljarða

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Kristján Loftsson forstjóri og eigandi Hvals hf.
Kristján Loftsson forstjóri og eigandi Hvals hf. 365/Anton Brink
Frystar hvalaafurðir Hvals hf á síðasta ári voru metnar á 3,6 milljarða króna á síðasta fjárhagsári. Erfiðlega hefur gengið að koma kjötinu á markað í Japan og mun taka nokkrun tíma að klára birgðirnar.

Frá árinu 2013 til september loka 2015 veiddi Hvalur h/f 426 dýr. Óseldar birgðir fyrirtækisins voru fyrir tveimur árum metnar á 1,8 milljarða króna en eru nú metnar á 3,6 milljarða.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Hvals fyrir tímabilið 1. október 2014 til 30. september 2015 nam hagnaður fyrirtækisins 2,3 milljörðum króna. Afkoman var 752 milljónum lakari en árið á undan og skýrist hagnaðurinn alfarið af tekjum af eignarhlut Hvals í Vogun hf. en það á 33,7% hlut í HB Granda og 38,6% hlut í Hampiðjunni.

Sala á afurðunum skilaði fyrirtækinu 1,3 milljörðum króna en útgerðin sem rekur meðal rekstur hvalveiðiskip Hvals og vinnslustöðvar í Hvalfirði, kostaði 1,9 milljarða.

Eignir fyrirtækisins eru metnar á 26 milljarða en skuldir þess námu 9,9 milljörðum. Fyrirtækið greiddi hluthöfum sínum arð, alls 800 milljónir fyrr á þessu ári. Á síðustu þremur árum hefur fyrirtækið greitt hluthöfum sínum 2,6 milljarða í arð.

Það mun taka fyrirtækið nokurn tíma að klára þær birgðir sem það á eftir síðasta ár en hindranir á Japansmarkaði hafa gert það að verkum að erfiðlega hefur gengið að koma kjötinu á markað þar.

Ekki náðist í Kristján Loftsson, forstjóra Hvals við vinnslu fréttarinnar en í viðtali við Morgunblaðið í mars síðastliðnum sagði hann að fyrirtækið hefði aldrei hafið hvalveiðar að nýju árið 2006 ef forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu vitað hvað var í vændum í Japan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×