Erlent

Fastakúnnar á Pulse segja Mateen hafa stundað staðinn og notað app fyrir samkynhneigða

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mateen lést í átökum við lögreglu eftir að hafa myrt 49 manns.
Mateen lést í átökum við lögreglu eftir að hafa myrt 49 manns. Vísir/EPA
Omar Mateen, maðurinn sem myrti tæplega fimmtíu borgara á skemmtistaðnum Pulse í Flórída á sunnudag, hafði sést á staðnum nokkrum sinnum sjálfur. Pulse er skemmtistaður fyrir samkynhneigða.

Greint er frá því á Sky news að að minnsta kosti fjórir hafi greint frá því að þeir hafi séð Mateen á staðnum fyrir þetta kvöld.

Einn fastakúnni staðarins sagðist í raun hafa séð Mateen oftar en tíu sinnum. „Hann fór stundum út í horn og drakk einn. En stundum varð hann svo fullur að hann varð hávær og árásargjarn. Við töluðum ekki mikið við hann en ég man að hann talaði eitthvað um pabba sinn,“ sagði maðurinn sem heitir Ty Smith. „Hann sagði okkur að hann ætti konu og barn.“

Kevin West, annar fastagestur á Pulse, sagði Mateen hafa sent sér skilaboð í gegnum smáforrit fyrir samkynhneigða. Sagði hann samskiptin hafa verið í gangi af og til yfir heilt ár.

Fyrrum eiginkona Mateen, Sitora Yusufiy, var spurð af CNN í gær hvort hún teldi eiginmann sinn hafa verið samkynhneigðan. Hún þagði í nokkra stund áður en hún svaraði: „Ég veit það ekki.“

Lögreglan í Orlando hefur neitað að verða við fyrirspurnum fjölmiðla um málið. Faðir Mateen hefur greint frá því að fyrir um tveimur mánuðum hafi sonur hans reiðst mjög er hann sá tvo karlmenn kyssast. Sagði faðirinn í samtali við Sky news að hann hefði talið eðlileg viðbrögð að segja heldur: „Þetta er frjálst land.“

Vinir ódæðismannsins hafa lýst honum sem manni með fordóma í garð samkynhneigðra og að hann hafi verið í andlegu ójafnvægi.

Árásarmaðurinn Omar Mateen var 29 ára gamall. Hann var skotinn til bana inni á Pulse í gær af sérsveitarmönnum sem ruddust inn á staðinn en Mateen hélt fólki í gíslingu inni á staðnum í þrjá klukkutíma. Fyrir tveimur vikum keypti hann sér vopn, löglega, meðal annars Glock-skammbyssu sem hann notaði í árásinni. 


Tengdar fréttir

Byssueignin er vandamálið vestanhafs

Bandaríkjamenn styðja frelsi fólks til skotvopnaeignar þrátt fyrir mannfall í skotárásum þar. Litlar breytingar eru í sjónmáli á skotvopnalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×