Fótbolti

Sverrir Ingi: Lít ekki á mig sem byrjunarliðsmann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverrir Ingi á sjúkrabekknum á hóteli íslenska liðsins í Annecy.
Sverrir Ingi á sjúkrabekknum á hóteli íslenska liðsins í Annecy.
Sverrir Ingi Ingason hefur nýtt þau tækifæri sem hann hefur fengið með íslenska landsliðinu vel. Hann hefur spilað síðustu þrjá landsleiki Íslands og skorað í þeim tvö mörk.

„Ég hefði átt að skora líka gegn Liechteinstein,“ viðurkennir Sverrir Ingi í samtali við Vísi. Hann skoraði bæði gegn Grikklandi og Noregi og fékk gott skallafæri í leiknum gegn Liechtenstein á Laugardalsvelli.

„Ég missti hann einn meter yfir. En ef þú hefðir sagt mér að ég myndi skora tvö mörk í þessum þremur leikjum hefði ég tekið því.“

„Ég er ekki í liðinu til að skora mörk. En það er auðvitað alltaf gott fyrir okkur að nýta föst leikatriði. Við getum fengið mikið út úr því á þessu móti,“ segir Sverrir Ingi sem gerir ekki tilkall til þess að byrja í leiknum gegn Portúgal.

„Ég er nýliði í landsliðinu og er að koma inn í liðið. Ég fékk tvo leiki (í maí) og reyndi að stimpla mig inn eins vel og ég gat. Kári [Árnason] og Raggi [Ragnar Sigurðsson] hafa verið frábærir. Það er erfitt að ætla að slá menn út sem halda nánast hreinu í hverjum leik.“

„Mitt hlutverk er að vera klár ef að kallið kemur. Ég er undirbúinn og tek því hlutverki sem mér er gefið.“

Hann hefur góða tilfinningu fyrir leiknum gegn Portúgal í kvöld. „Portúgal er með sjálfstaustið í lagi eftir að hafa slátrað Eistlandi en ég vona að okkur takist að stilla spennustigið og koma vel stemmdir til leiks.“

„Við komum inn í leikinn sem lítilmagni og það getur oft verið gott að sigla undir radarinn og láta aðeins finna fyrir okkur.“

Sverrir Ingi býst við að það fylgi því miklar tilfinningar að spila fyrsta leik Íslands á stórmóti en vonast eftir því besta. „Vonandi náum við sem bestu úrslitunum og fylgjum því svo eftir í næstu leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×