María, sem er 23 ára gömul, er dóttir Þóris Hergeirsdóttir, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta. Hún æfði sjálf handbolta í mörg ár en valdi á endanum fótboltann.
María lék með Noregi á HM í Kanada í fyrra en hefur undanfarin misseri glímt við erfið meiðsli. María segir að nú horfi til betri vegar með þau.

María stefnir á að endurheimta sæti sitt í norska landsliðinu fyrir EM í Hollandi næsta sumar. Noregur og Ísland drógust ekki saman í riðil en María vonar að liðin mætist í útsláttarkeppninni. Hún fékk á sínum tíma boð um að spila með íslenska landsliðinu.
„Ég var spurð hvort ég vildi spila fyrir íslenska landsliðið en þá var ég samt í unglingalandsliði Noregs. En það var mjög gaman og stórt fyrir mig að ég var spurð. Ég valdi Noreg en finnst Ísland mjög gott. Ég spilaði fyrsta landsleikinn minn gegn Íslandi og það var mjög sérstakt,“ sagði María.
Þórir er nýbúinn að gera Noreg að Evrópumeisturum og María er að vonum stolt af föður sínum.
„Hann er bara eins og hver annar pabbi. En hann hefur staðið sig mjög vel og það var gaman fyrir hann og okkur að vinna gull,“ sagði María sem hélt jólin hér á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni, í fyrsta sinn í átta ár.