Innlent

Best að drepa hann með því að skera af honum hausinn

Jakob Bjarnar skrifar
Árangursríkast að tína sniglana og drepa þá með því að annaðhvort skera af þeim hausinn, setja þá ofan í heitt vatn eða frysta.
Árangursríkast að tína sniglana og drepa þá með því að annaðhvort skera af þeim hausinn, setja þá ofan í heitt vatn eða frysta. Mynd/Erling Ólafsson
Sérfróðir óttast að Spánarsnigillinn svokallaði geti orðið að plágu á Íslandi. Hann fannst fyrst á Íslandi árið 2003 en hans hefur nú orðið vart á 13 stöðum á landinu.

Mikilvægt er að sporna gegn útbreiðslu hans og hefur nú umhverfisstofnun gefið út leiðbeiningar um hvernig best sé að uppræta hann og drepa. Víst er að þær lýsingar gætu farið fyrir brjóstið á hörðustu dýravinum.

„Þegar Spánarsnigill finnst í heimilisgarði er árangursríkast að tína sniglana og drepa þá með því að annaðhvort skera af þeim hausinn, setja þá ofan í heitt vatn eða frysta. Síðan má setja þá í almennan heimilisúrgang. Til þess að spara sér vinnu borgar sig að nota gildrur sem maður útbýr sjálfur eða kaupir í garðvöruverslunum og setja í þær ávaxtaafganga eða bjór til að laða sniglana að.“

Þá segir jafnframt að mikilvægt sé að eyða öllum lífstigum Spánarsnigilsins og þar eru eggin ekki undanskilin. Þau má finna í 10-200 eggjaklösum á stöðum þar sem raki helst hár eins og undir pottum og bökkum, steinum og spýtum eða undir gróðri. „Þau drepast líka í heitu vatni eða í frosti eins og sniglarnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×