Skoðun

Um utan­ríkis­mál

Elín Hirst skrifar

Sú ákvörðun að styðja áframhaldandi viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi er afar þýðingarmikil. Ísland grípur til aðgerða, eins og viðskiptaþvingana, með öðrum ríkjum þegar framin eru svo alvarleg brot á alþjóðalögum og sáttmálum, sem innlimun Krímskaga og hernaðurinn í Úkraínu eru. Ríki hafa yfir fáum öðrum úrræðum að ráða gagnvart hinum brotlega en viðskiptaþvingunum ef ekki á að beita vopnavaldi.



Við getum að sjálfsögðu ekki talað tveimur tungum hvað varðar virðingu okkar fyrir alþjóðalögum. Sem smáríki byggjum við afkomu okkar að miklum hluta á fiskveiðum og eigum því allt undir því að alþjóðalög og sáttmálar séu virtir.



Það er alveg ljóst að Rússar fylgjast vel með framgangi þessara mála og umræðunni hér á landi um þessi mál. Þeir vilja að sjálfsögðu mikið til vinna svo reka megi fleyg í samstöðu vesturveldanna í þessu máli og það má ekki með nokkru móti gerast.



Það hefur verið kjarni utanríkisstefnu Íslands í áratugi að eiga samvinnu og samleið með vestrænum lýðræðisríkjum, enda hefur það margoft sýnt sig að þar er hagsmunum okkar best borgið og þar erum við í hópi þjóða sem við getum borið okkur saman við þegar kemur að mikilvægum lýðræðislegum gildum. Hvernig getum við ætlast til þess, ef við segðum nú skilið við bandamenn okkar í aðgerðum þeirra gegn einhverjum alvarlegustu atburðum í utanríkismálum Evrópu um áraraðir, að þeir komi okkur til aðstoðar ef á okkur er ráðist?



Hvað er rétt að gera og hvar liggja mikilvægustu hagsmunir okkar? Svarið er augljóst í mínum huga. Við verðum að sjálfsögðu að taka hagsmuni, svo sem öryggi lands og þjóðar, fram yfir viðskiptahagsmuni, þrátt fyrir að það sé auðvitað bölvað að missa tekjur á Rússlandsmarkaði.



En það ber að hrósa íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir dugnað við að finna nýja markaði fyrir þær vörur sem sem áður voru seldar til Rússlands, og laga sig þannig að breyttum aðstæðum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×