Innlent

VR krefst þess að ákvörðun kjararáðs verði dregin til baka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Stjórn stéttarfélagsin VR krefst þess að úrskurður kjararáðs um laun ráðherra, alþingismanna og forseta Íslands, verði tafarlaust dreginn tilbaka. Vill VR að það verði fyrsta verk nýs Alþingis að draga úrskurðinn til baka og endurskoða reglur um kjararáð.

Með ákvörðun kjararáðs hækka grunnlaun þingmanna, svokallað þingfararkaup, úr 762.940 krónum á mánuði í 1.101.194 krónur á mánuði. Þá fá ráðherrar og forseti einnig ríflega launahækkun samkvæmt úrskurði kjararáðs. Töluverðar reiði gætir í samfélaginu vegnar ákvörðunar kjararáðs og hafa alþingismenn og verkalýðsfélög kallað eftir endurskoðun á úrskurðinum.

Í tilkynningu frá VR segir að rök kjararáðs fyrir þessum hækkunum duga engan veginn til að réttlæta úrskurð ráðsins. Stjórnvöld verði að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna ábyrgð og hógværð í launahækkunum eins og stöðugt er sagt við almenna launamenn.

„Ef þessi hækkun á að standa óbreytt er hið opinbera að senda íslensku launafólki skýr skilaboð. Með því eru þau að hafna samvinnu um nýtt kjarasamningalíkan sem stefnir að stöðugleika og auknum kaupmætti en bjóða þess í stað upp í dans endalauss höfrungahlaups launahækkana og óðaverðbólgu,“ segir í tilkynningunni.

Það sé því krafa VR að fyrsta verk nýs Alþingis verði að draga þennan úrskurð til baka og endurskoða reglur um kjararáð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×